141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það hefði kannski verið meira gaman, svona fyrir fjörið, ef við hv. þingmaður hefðum ekki verið að ræða 39. gr. heldur til dæmis 34. gr. En það er önnur saga. Maður verður að velja og hafna í þessari umræðu.

Það sem ég er einfaldlega að reyna að segja er þetta: Ef menn ætluðu að vera trúir því sem þarna segir, að atkvæði kjósenda alls staðar að á landinu eigi að vega jafnt, felur það í raun í sér að færa sex þingmenn sem nú eru kjörnir af landsbyggðarkjördæmunum þremur inn á höfuðborgarsvæðið, það er það sem þetta felur í sér, þannig að þingmönnum á höfuðborgarsvæðinu mundi þá fjölga frá því sem nú er og verða upp undir 40.

Hérna er hins vegar farin, að mínu mati, algjörlega galin leið og allt of flókin leið sem býður upp á þá miklu hættu að vegna margfeldisáhrifanna og stærðar höfuðborgarsvæðisins muni landslistaleiðin sem þarna er verið að leggja til — sem á að ná til 33 þingmanna, meiri hluta þingmanna — leiða til þess að þingmennirnir sem kjörnir verða af landslista verði fyrst og fremst kjörnir af þeim stóra massa sem hér býr (Forseti hringir.) eða þá að kosnir verða menn sem eru kannski svo skoðanalausir um málefni landsbyggðarinnar, þó að þeir eigi þar einhverjar rætur, að menn telji óhætt að kjósa þá á þing. (Forseti hringir.) Ég vara mjög eindregið við þessu og ég held að þarna sé verið að fara úr öskunni í eldinn.