141. löggjafarþing — 38. fundur,  20. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[23:42]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hv. þm. Péturs H. Blöndals að við eigum að fara í þetta verkefni með það að markmiði að leita sátta. Ég held hins vegar að það skipti máli að við náum fram heildstæðri breytingu á stjórnarskránni, eins og kostur er, en séum ekki með það í einhverjum bútasaum með miklum takmörkunum eins og hefur verið í bráðum sjö áratugi.

Varðandi kosningafyrirkomulagið, vegna þess að það hefur komið fram í umræðunni fyrr í kvöld. Það endurspeglast í þeim tillögum, sem eru þó settar fram sem málamiðlun, að það virðist vera langt í land með að fulltrúar landsbyggðar séu sáttir með tillögurnar, eins og við heyrðum fyrr í umræðunni, og að hlutunum sé stillt upp á þann veg að höfuðborgarsvæðið sé að fara fram með ofurvaldi gagnvart dreifbýlisbyggðum. Hv. þingmaður vísaði í persónukjör sem er kosningafyrirkomulag sem til að mynda þekkist í Þýskalandi. Tillögur stjórnlagaráðs gerðu ráð fyrir margvíslegum útfærslum til þess að nálgast þennan jöfnuð gagnvart landinu í heild sinni og gagnvart flokkunum og skoðunum almennings. Maður spyr sig því í fyrsta lagi hvort mögulegt sé að nálgast þessi mál með því að fara fram með breytingar á kosningafyrirkomulaginu í ákveðnum áföngum þannig að það gerist kannski ekki í einu stökki. Þingið hefur auðvitað ákveðnar heimildir til þess hvernig útfærslan er þótt markmiðið samkvæmt stjórnarskránni sé að fara ákveðnar leiðir.

Maður spyr sig líka að því, ef við horfum til nálægra landa í svipaðri landfræðilegri stöðu eins og við, til að mynda Noregs, hvers vegna menn geti náð þar breiðri sátt milli þéttbýlis og dreifbýlis um rétt samfélagsins til þess að tryggja þennan jöfnuð. Af hverju ættum við ekki að geta gert það líka á Íslandi?