141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að vekja athygli á því að spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um hagvöxt á Íslandi á næstu árum hafa komið fram og hann spáir minni hagvexti en Seðlabankinn hefur gert. Og það sem meira er, það er stutt síðan Seðlabankinn færði niður spá sína. Með öðrum orðum bendir það til þess að enn sé að draga úr væntingum manna um hagvöxt á Íslandi.

Sérstaklega vek ég athygli á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áhyggjur af víxlverksverkan launa og verðlags. Hún er gamall kunningi hér. Þegar laun hækka umfram framleiðni, umfram verðmætasköpun er hætta á því að svo fari.

Þegar kjarasamningar voru gerðir voru gefnar ákveðnar forsendur fyrir þeim, sem m.a. hæstv. ríkisstjórn skrifaði upp á, um hvernig væri hægt að auka hagvöxt hér á landi þannig að forsendur kjarasamninganna stæðust. Það var ekki gert, við það var ekki staðið og þess vegna er ekki skrýtið að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi nú áhyggjur af því að fram komi þessi gamli óvinur, víxlverkan launa og verðlags. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn heldur því fram að Seðlabankinn þurfi að hækka vextina umtalsvert til að bregðast við því á sama tíma og dregur úr væntingum manna um hagvöxt.

Það eru alvarleg tíðindi, virðulegi forseti. Við þeim þarf að bregðast og ríkisstjórnin þarf að leggja miklu harðar að sér og ná betri árangri í hagstjórninni. Það er ekki hægt að festast aftur í þeirri stöðu að verðlagið hækki og síðan launin og síðan verðlagið og svo launin og þannig koll af kolli. Þá miðar okkar ekkert áfram. En hættan er fyrir hendi og við því þarf að bregðast.