141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Nú er sá tími þegar menn ganga til rjúpna og eins og við höfum orðið vör við hefur veður á þessu hausti verið með því versta á norðanverðu landinu í margra minnum. Sumir segja að snjór á norðanverðu landinu sé víða meiri en elstu menn muna.

Þegar rjúpnaveiðitímabilið var stytt á síðasta ári í níu daga bentu menn á að það gæti leitt til þess að ef það gerði slæmt veður yrði erfitt að ganga til rjúpna. Þá yrði ásóknin mun meiri þá fáu daga sem gott veður væri sem haft gæti í för með sér slys og annað.

Um leið og við fjöllum um þessi mál er ánægjulegt að sjá hver þróunin hefur verið í rjúpnaveiði undanfarin ár. Vitundarvakning hefur orðið hjá veiðimönnum þannig að sú stórveiði sem tíðkaðist á árum áður heyrir algerlega sögunni til, að ég tel. Flestir veiða eingöngu nokkra fugla fyrir sig og sína og er það vel.

Fyrr í þessum mánuði komu menn frá Skotvís að máli við stjórnvöld og veltu því upp að ef fram færi sem horfði, að ef ekki væri hægt að ganga til rjúpna vegna veðurs, hvort mögulegt væri að lengja rjúpnaveiðitímabilið hugsanlega um eina, tvær helgar. Svör umhverfisráðherra voru á þá leið að það væri það skammt liðið á tímabilið að rétt væri að bíða og sjá hvernig mundi viðra þær helgar sem eftir væru.

Nú liggur fyrir að það er einungis ein helgi eftir og spáin er ekki allt of góð. Það hafa verið mjög slæmar helgar og ég held að full ástæða sé til að skoða þessi mál. Ég hef falast eftir því að umhverfisnefnd taki málið upp og fái á sinn fund umhverfisráðherra, Umhverfisstofnun og aðra er málið varðar ásamt fulltrúum frá Skotvís því að ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við skoðum þessi mál faglega (Forseti hringir.) og með opnum huga. Það er (Forseti hringir.) brýn þörf að skoða þessi mál.