141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil halda áfram að vekja athygli þingheims á ákveðnum málum sem snúa að þeim hagvaxtarspám sem ég gerði hér að umtali.

Í skýrslum Seðlabankans er bent á að sú staðreynd að heildarvinnustundafjöldinn hefur ekki farið vaxandi þrátt fyrir að hagvöxtur hafi mælst vekur mann til umhugsunar um eftirfarandi: Er um að ræða svona mikla framleiðniaukningu í hagkerfinu sem gerir það að verkum að hægt er að ná fram hagvexti án þess að fjölga vinnustundunum eða erum við að mæla hagvöxtinn rétt?

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að miðað við það hvernig þessar spár hafa verið að ýtast frekar niður á við, verið er að draga úr þeim, og að sú staðreynd að ekki hefur verið að bætast við störfin, vekur það mann auðvitað til umhugsunar. Það er sjálfsagt fyrir okkur að velta því fyrir okkur. En það sem mestu skiptir er að atvinnustefnan, atvinnustefna núverandi ríkisstjórnar, hefur ekki verið til þess fallin að ýta undir fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Það varð slaki eftir hrunið, gríðarlegur samdráttur, og þar með var tækifæri til að vaxa hratt án þess að valda spennu í hagkerfinu. Það tækifæri hefur ekki verið nýtt sem skyldi. Það hefur ýtt undir fólksflutninga frá landinu. Þúsundir Íslendinga hafa gengið um atvinnulausar með miklum kostnaði fyrir þá einstaklinga, bæði efnahagslegum og andlegum, og líka að sjálfsögðu fyrir ríkissjóð.

Það sem skiptir mestu máli núna á þessum kosningavetri er að við náum að breyta ríkisstjórnarstefnunni þannig að við nýtum þau tækifæri sem við þó höfum í landinu til að snúa vörn í sókn. Það er hægt, virðulegi forseti, og okkur liggur á í því. Ábendingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (Forseti hringir.) og það sem kemur fram hjá Seðlabankanum ætti að vekja okkur til umhugsunar um það.