141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil nota tækifærið og taka undir með Lilju Mósesdóttur þingmanni þar sem hún bendir á hinn mikla aðstöðumun sem er á milli nýrri og eldri flokka og stórra og smárra. Það er gríðarlegur munur. Hann felst í fjármagni þar sem þeir sem fyrir eru á fleti hafa haft tækifæri til að skammta sér óheyrilega fjármuni. Það er verkefni okkar að jafna þann aðstöðumun ef við viljum hafa alvörulýðræði en verkefnið er líka að draga úr fjárþörf stjórnmálaflokka. Ég vil nefna sérstaklega auglýsingar í ljósvakamiðlum. Mér finnst allt í lagi að stjórnmálaflokkar auglýsi viðburði en ímyndarauglýsingar búnar til á auglýsingastofu eru ekki góður liður í umræðunni. Það fletur út alla umræðu og hún verður yfirborðskennd. Þetta eru glansmyndir sem segja ekkert raunverulegt um flokkana.

Ég held að líka sé ráð að efla lýðræðislegar skyldur fjölmiðla, sérstaklega Ríkisútvarpsins sem mér finnst eigi að gegna sérstöku hlutverki í þessum efnum.

Ég vil einnig nota tækifærið og taka undir með þeim sem hafa talað um launamál hjúkrunarfræðinga. Ég óttast mjög þann spekileka sem er farinn í gang sem ég held að muni vera samfélaginu mjög dýrkeyptur. Við höfum sem samfélag eytt mjög miklum fjármunum, tíma og mannauði í að mennta gott fólk til þeirra starfa fyrir Ísland en ekki fyrir Noreg. Það er átakanlegt að horfa á hvernig kvennastéttir virðast alltaf verða undir þegar laun fara að hækka, þá sitja þær eftir.