141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í samtölum mínum við kjósendur undanfarið hef ég orðið var við að mönnum finnst vera mikið frost í atvinnulífinu, lítið að gerast, engar fréttir og engin von, frú forseti.

Ég tel að hv. þingmenn þurfi að taka höndum saman um að byrja á að leysa snjóhengjuna. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra og varðar þjóðaröryggi.

Í öðru lagi vil ég að við leysum vanda heimilanna, hann er tvíþættur: Annars vegar er skortur á atvinnu. Það tengist því að fjárfestingarstigið er mjög lágt. Við þurfum að vinna að því að skapa forsendur fyrir mikilli og öflugri fjárfestingu, verðlauna hana og lofa á öllum sviðum þannig að bæði einkaaðilar og fyrirtæki sjái sér hag í því að fjárfesta. Það skapar atvinnu. Þegar fólk hefur atvinnu getur það borgað framfærslu barnanna sinna og af lánunum sínum.

Hins vegar þurfum við líka að leysa skuldavanda þeirra sem keyptu þegar eignabólan var frá september 2004 til nóvember 2008. Sá hópur manna er í mjög dapurlegri stöðu, getur ekki selt, getur ekki stækkað við sig, getur sig hvergi hreyft. Ég tel að við þurfum að leysa málin hjá þeim hópi fjölskyldna, sem er um 10% heimilanna, við þurfum að leysa vanda þess hóps.

Svo þurfum við þingmenn að sjálfsögðu að fara að líta til framtíðar hvað við ætlum að gera, einfalda skattkerfið og lækka skatta, bæta kvótakerfið og gera það skilvirkara þannig að menn sjái sér hag í því að lifa í landinu og vilji vinna hérna. Við eigum að verðlauna sparnað og ráðdeild, frumkvæði og dugnað en ekki að refsa fyrir hvort tveggja.