141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[15:52]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Fyrir næstum 20 árum sat ég í bekk í Háskóla Íslands að læra íslensku og kennarinn spurði okkur spurningar sem hefur alltaf setið í mér. Hann spurði: Munum við sætta okkur við að þurfa að tala ensku við eldavélina okkar? Ég verð að viðurkenna að það vakti mig til umhugsunar en mér fannst það fjarstæðukennt að við værum í þeirri stöðu að babla við heimilistækin okkar. En nú er sá tími runninn upp eða að renna upp að við tölum við tól og tæki, kannski ekki endilega eldavélina en ýmis tól og tæki. Og það er klárlega framtíðin.

Við búum við það að vera fámenn þjóð. Við búum á litlu málsvæði og það eru fáir sem tala tungumálið okkar. Mig langar að vekja athygli á bók sem heitir Íslensk tunga á stafrænni öld, þar sem er einmitt lagt mat á máltæknistuðning fyrir 30 Evrópumál og eru niðurstöðurnar í þessu riti. Þar kemur fram að íslenskan hefur allt of lítinn eða engan stuðning í því umhverfi og það er ekki ásættanlegt. Við þurfum að taka okkur á, því að ég held við viljum öll geta talað íslensku við eldavélina okkar og önnur tæki og við viljum geta notað íslenskuna á öllum sviðum lífs okkar. Við þurfum að gera okkur grein fyrir að þetta kostar peninga og hér má í raun og veru ekki spara og við þurfum að ráðast í aðgerðir. Það er aðgerðaáætlun í ályktuninni sem mér líst vel á.