141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

íslensk tunga á tölvuöld.

[15:56]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Í síðustu viku var ég svo heppinn að vera staddur í einkaerindum í Vesturheimi, sem heitir Nýja Ísland, var einu sinni sjálfstjórnarsvæði þar sem íslenskir landnemar settust að fyrir um það bil 140 árum. Þar sat ég yfir kaffi og rjómapönnukökum með Íslendingum, Vestur-Íslendingum sem töluðu að minnsta kosti jafngóða íslensku og ég ef ekki betri og voru af fimmtu kynslóð Vestur-Íslendinga í því landi.

Þetta var fólk á mínum aldri og sagði mér að börn sín og barnabörn, þ.e. sjötta og sjöunda kynslóð, væru líka mælt á íslensku. Það skýtur skökku við því að árin 2006 og 2007 var uppi umræða um það að íslenska væri okkur svo mikill fjötur um fót að Íslendingar gætu ekki með góðu móti stundað viðskipti við aðrar þjóðir. Ég segi: Meðan íslensk tunga og tilfinning fyrir nauðsyn þess að hver manneskja þekki sínar rætur og eigi tungumál sem er aðgangur og lykill að menningararfi, þá er íslenskri tungu engin hætta búin því að hennar síðasta virki er í hjarta þjóðarinnar og engin stafræn ógn og engir peningafábjánar geta haggað við henni. En ef hún býr ekki lengur í hjarta okkar þá stöndum við eftir mállaus og fremur umkomulaus í veröldinni.