141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:23]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menntun er náttúrlega mjög vítt hugtak. Mig langar að fá að grípa niður í áliti sem laganefnd Lögmannafélags Íslands skilaði til félagsins, þar sem einmitt er rætt um þetta orðalag, „án endurgjalds“. Með leyfi forseta:

„Til dæmis má velta því upp hvort í menntun „án endurgjalds“ felist að sveitarfélög verði að láta nemendum í té bækur, skriffæri, tölvur og annað það sem notast er við í skólastarfi án endurgjalds.“

Ætli það sé búið að ræða þetta eitthvað við Samband íslenskra sveitarfélaga, ef þessi möguleiki er fyrir hendi? Erum við að fara inn á þessa braut? Þar sem menntun er á sviði hæstv. ráðherra langar mig að spyrja hvernig hún skilji þessa afstöðu laganefndar Lögmannafélags Íslands.