141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:28]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur ekki reynst vel að leyfa þinginu að fikta við kosningalögin hingað til þannig að mín afstaða er sú að sem mest af þessu eigi að vera í stjórnarskrá ef hægt er.

Hin spurningin sem mig langar að beina til hæstv. ráðherra snýr að beinu lýðræði en hún ræddi aðeins um beint lýðræði að frumkvæði kjósenda og að frumkvæði þriðjungs þingsins. Það síðarnefnda er ákvæði sem hefur verið í frumvarpi Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur þrjú ár í röð einmitt vegna þess að okkur ofbauð ósættið í þinginu. Okkur varð mjög fljótt ljóst að þingið mundi aldrei vinna almennilega saman nema það væri neytt til þess með einhverjum svona ákvæðum þar sem minni hlutinn gæti vísað málum sem mikið ósætti væri um í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við höfum núna lagt fram þetta frumvarp í þriðja sinn þar sem greinilegt er að breytingar verða á lögum í kjölfarið. Það er hægt að ná þessu fram með lagabreytingu. Það yrði að vísu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla (Forseti hringir.) en engu að síður þjóðaratkvæðagreiðsla.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Mun hún styðja frumvarp okkar í kjölfarið þegar það kemur til umræðu?