141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti hreinlega fyrir mér hvort það sem hv. þingmaður nefnir ætti að standa: Vísindi, fræði og listir skulu vera frjáls.

Vissulega er þá eðlilegt að þess sjái stað í lögum. Ég nefndi áðan að í lögum um háskóla sem þingið samþykkti í fyrra var kveðið á um þetta faglega frelsi háskólanna. Það er spurning hvort það yrði ekki eðlileg afleiðing þess ef við tryggjum frelsisákvæði í stjórnarskrá að þess muni sjá stað í lögum um háskóla, vísindi o.s.frv.

Í 22. gr. er talað um réttinn til lífsviðurværis sem mér finnst eðlilegt að sé tryggður. Sanngjörnu launin fann ég ekki í fljótu bragði, ég heyrði ekki alveg hvaða grein þingmaður nefndi.

Varðandi forsetaembættið eru þar boðaðar breytingar sem ég tel líka mikilvægar. Ég náði ekki að koma því að í ræðu minni að hv. þingmenn ræði það ítarlega því að auðvitað (Forseti hringir.) standa til ákveðnar breytingar á því embætti sem ég tel sem sagt mikilvægt að séu ræddar á þingi.