141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðuna. Mig langar til að byrja á því að spyrja, nú fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla, reyndar ekki bindandi, um þessar tillögur stjórnlagaráðs og þær eru lagðar fram töluvert breyttar. Er það heimilt að mati þingmannsins eftir að þjóðin er búin að greiða atkvæði um stjórnarskrána?

Síðan vil ég spyrja hann um hlutverk forseta Íslands. Forseti Alþingis er kominn með dálítið sérkennilegt hlutverk. Hann er ekki lengur hluti af löggjafarsamkundunni því hann hefur ekki atkvæðisrétt. Væri ekki eðlilegt að fela honum hlutverk forseta Íslands og leggja niður embætti forseta Íslands? Ég hef reyndar lagt það til áður í sérfrumvarpi.

Síðan er það spurningin um persónukjör. Þarna er verið að flytja persónukjörið inn í kosningarnar og þá er það aðallega slagur á milli manna en ekki á milli hugsjóna eða flokka. Væri ekki miklu eðlilegra að svona fjórum mánuðum fyrir kosningar væri sameiginlegt prófkjör allra flokka, allra þeirra sem vilja bjóða fram? Þá yrði hreinlega raðað á lista og menn gætu jafnvel skipt atkvæðum sínum á milli flokka, helmingurinn af atkvæðum hjá Samfylkingunni og hinn helmingurinn hjá Sjálfstæðisflokknum. Þá getum við raðað mönnum á listana. Væri það ekki miklu snyrtilegri og fínni aðferð en að flytja prófkjörið inn í kosningarnar?

Síðan vil ég spyrja um 65. gr. og 66. gr. sérstaklega, að tveir af hundraði kjósenda geti lagt fram frumvarp. Ef einhver hópur manna er með tilbúið frumvarp, telur hv. þingmaður ekki að það sé alveg örugglega hægt að finna einhvern þingmann af 63 á Alþingi sem væri tilbúinn til að leggja það fram, því að hver og einn einasti þingmaður getur lagt fram frumvarp? Ég á eftir að sjá það að hér komi hópur manna með tilbúið frumvarp og finni engan þingmann til að leggja það fram.

Svo ætla ég að koma með eina spurningu í viðbót.