141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þriðju kynslóðar réttindi felast nefnilega ekki eingöngu í mannréttindum. Þar eru ákveðin mál gerð hliðstæð mannréttindum, eins og ég fór yfir áðan. Til dæmis er lagt til í stjórnarskrá þessari að Árósasamningurinn skuli lögbundinn. Í fyrra þegar lagt var fram frumvarp til laga á sviði umhverfisréttar náðum við að taka út það ákvæði að hver sem væri, hvar sem hann hefði lögheimili, hefði kærurétt hér á landi. Engin þjóð hafði gengið svo langt á sínum tíma, að vísu gerðu Hollendingar það en þeir tóku það ákvæði til baka. En það er beinlínis lagt til í þessu frumvarpi og ég tel að verið sé að fara bakdyramegin að hlutunum með því að setja þann þátt inn í frumvarpið.

Varðandi 36. gr., um dýravernd, get ég heldur ekki tekið undir það að það séu mannréttindi. Þetta eru réttindi dýra sem ég tel að eigi ekki heima í stjórnarskrá. En ég (Forseti hringir.) styð að sjálfsögðu dýravernd og ef styrkja á dýravernd gerum við það náttúrlega í almennum lögum. En dýravernd fellur ekki undir mannréttindi sem eiga að vera stjórnarskrárbundin (Forseti hringir.) því að stjórnarskrá á fyrst og fremst að verja rétt borgaranna gagnvart ofríki stjórnvalda.