141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:37]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka innlegg hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar um þetta merkilega og mikilvæga mál. Ég hjó eftir því að hann velti fyrir sér málum sem varða kjördæmaskipan og landsbyggðarþingmenn versus höfuðborgarþingmenn. Hann telur að í bestu heimum ætti ekki að skipta máli hvaðan menn eru sprottnir. En ég held að það skipti máli, alla vega eins og fyrirkomulagið okkar er í dag. Mér hefur til dæmis fundist það endurspeglast ágætlega í því að Reykjavíkurþingmenn hafa ekki látið sig varða mjög samgöngumál á landsbyggðinni eða fiskveiðistjórnarkerfi eða annað í þeim dúr, eða það hefur mér þótt. Þannig að ég set spurningarmerki við að þetta sé hægt svona einn, tveir og þrír.

Þingmaðurinn nefndi eflingu sveitarstjórnarstigsins. Mig mundi langa til að heyra hvaða leiðir hann sér færar til að gera það og hvort hann sjái að hægt sé að kveða á um það í þessu frumvarpi.