141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:42]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur margt verið sagt í ræðustóli í dag og í gær er lýtur að þeirri miklu vinnu sem þegar hefur verið unnin og er fram undan við að breyta stjórnarskrá Íslands. Ég er í hópi þeirra sem hafa talið að þetta sé ekki brýnasta málið nú um stundir, að brýnni mál steðjuðu að en að endurskoða stjórnarskrá Íslendinga. Ég hef einnig haft efasemdir um að kröftum Alþingis sé best varið með því að taka þetta mál fyrir núna. Ég hef ekki talið ástæðu til að semja nýja stjórnarskrá þótt vissulega mætti og hefði mátt endurskoða einstök ákvæði hennar, en þá hefði bara átt að endurskoða hana, ekki búa til nýja frá grunni. Um þetta ríkir einurð í Sjálfstæðisflokknum, þar er ég engin undantekning.

Þetta hefur vissulega verið umdeilt mál. Nú er málið komi á það stig að ekki virðist aftur snúið, alla vega eins og staðan er. Þá er um að gera að taka efnislegar umræður um málefnið. Það er von mín að í þeirri nefnd sem málið heyrir til, þ.e. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, nái nefndarmenn saman um að mætast á miðri leið með hinar og þessar tillögur sem kunna að koma fram í vinnunni sem fram undan er, ræða þær og taka jafnvel tillit til þeirra, hvort heldur þær koma frá stjórnarandstöðu eða umsagnaraðilum í samfélaginu. Ég held að tilgangurinn hljóti alltaf að vera sá að mynda breiða sátt um stjórnarskrá Íslands því að það verður að ríkja breið sátt um þetta grundvallarrit íslenskrar stjórnskipunar.

Hv. þm. Magnús Orri Schram var til dæmis opinn fyrir því í ræðu í gær að fram færu álagspróf á tillögunni í heild sinni eða gert yrði heildstætt mat eða úttekt á henni. Einnig sagði hv. þm. Róbert Marshall í ræðu hérna í gærkvöldi að hann teldi góðan flöt á samstarfi og ekki virtist langt á milli manna. Fleiri hafa talað í þessum dúr. Hann taldi reyndar að ekki væri brýn nauðsyn á að ljúka afgreiðslu frumvarpsins fyrir vorið, það vakti athygli mína, eða eins og hann orðaði það: Við erum ekki í spreng að klára málið.

Mig langar til að drepa á nokkrum atriðum í þeim tillögum sem liggja fyrir og eru hér til umræðu. Fyrst að nefna er kveðið á um lögræðisaldur í stjórnarskránni, bæði núgildandi og í því frumvarpi sem liggur fyrir. Einnig hefur verið lagt fram frumvarp til breytinga á núgildandi stjórnarskrá, frumvarp sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lagði fram á dögunum og lýtur að því að lækka kosningaaldur niður í 16 ár. Það finnst mér við fyrstu sýn ganga á skjön við þá ákvörðun sem var tekin árið 1997, í kjölfar fullgildingar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, um að lögræðisaldurinn yrði hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Ég tel ekki eins og sakir standa og hef ekki heyrt nægjanlega sterk rök fyrir því að það eigi að breyta þessu. Ég er þeirrar skoðunar að börn eigi að vera börn til 18 ára aldurs. Sú ákvörðun sem var tekin 1997 var meðal annars tekin í þeim tilgang og til að taka af allan vafa um ábyrgð og framfærsluskyldu foreldra. Ég hef verið þeirrar skoðunar að samræma eigi frekar öll lög eða aldurstakmörk sem lúta að þessu, svo sem ökuleyfisaldur og áfengiskaupaaldur.

Bent var á það í ræðu hér í gærkvöldi, af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, að ákvæði um aldurstakmörk gætu stangast á við t.d. 6. gr. eins og hún lítur út í frumvarpinu þar sem skýrt er kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda, hvort sem litið er til kynferðis, aldurs eða annars.

Ég vildi draga þetta sérstaklega fram í ræðu minni þótt þetta sé óneitanlega ekki eitt af stóru málunum þegar við ræðum nýja stjórnarskrá.

Mig langar til að beina athyglinni að sveitarfélögunum því að aðkoma sveitarfélaganna að þessu risastóra máli er mikilvæg og nauðsynleg. Hv. þm. Róbert Marshall sagði aðspurður í andsvörum hér í gær, um þann umsagnarfrest sem veittur yrði milli umræðna, að vænta mætti umsagna frá „the usual suspects“, eins og hann orðaði það. Þeirra á meðal eru væntanlega umsagnaraðilar á borð við annað af tveimur opinberum stjórnsýslustigum landsins, þ.e. sveitarfélögunum. Í frumvarpinu eru ákvæði sem hafa bæði bein og óbein áhrif á sveitarfélögin.

Það er brýnt að tryggja aðkomu sveitarfélaganna að málinu milli umræðna og veita rúman umsagnarfrest vegna umfangs og mikilvægis málsins. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent inn umsagnir fram að þessu og mundi gjarnan vilja koma frekar að málinu þar sem fyrst núna er virkilega hægt að rýna frumvarpið af einhverju viti. Ég veit að sveitarstjórnarmenn vonast eftir því að sá umsagnarfrestur verði sex, jafnvel átta vikur.

Í umsögn sambandsins frá 30. nóvember 2011 kom fram skýr vilji til að breyta 2. gr. frumvarpstillögunnar þannig að sveitarfélögum yrði bætt við í upptalningu á handhöfum framkvæmdarvalds í samræmi við stjórnskipulega stöðu þeirra. Upptalningin í 2. gr. mundi þá hljóða svo:

Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn, sveitarfélög — það orð færi inn — og önnur stjórnvöld fara með framkvæmdarvaldið.

Í umsögn sambandsins frá 13. desember 2011 er sömuleiðis fjallað um 2. mgr. 2. gr. í ljósi nýlegrar endurskoðunar á sænsku stjórnarskránni þar sem sveitarfélaganna er einmitt sérstaklega getið í 1. mgr.

Fleiri umsagnir hafa borist frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, til að mynda frá 11. maí 2011 þar sem sérstaklega er kveðið á um og lögð áhersla á sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga, m.a. að sveitarfélögum séu tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við verkefni sem þeim eru falin í stjórnarskrá og öðrum lögum. Þetta atriði er lýtur að tekjustofnum sveitarfélaga, og er afar brýnt að sé rætt, tengist til að mynda 24. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um menntun án endurgjalds. Ég veit að sveitarstjórnarmenn eru margir hverjir uggandi yfir því hversu opin sú grein er og velta fyrir sér hvort hún sé auki kostnað fyrir sveitarfélögin.

Einnig velta menn fyrir sér hvað felist í því sem fram kemur í sömu grein og kveður á um að virða skuli „rétt foreldra til þess að tryggja að menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra“. Engum blöðum er um það að fletta að þetta ákvæði mætti túlka sem svo að sveitarfélögum bæri að mæta þörfum hvers og eins í þeim efnum óháð aðstæðum eða kostnaði.

Örlítið að kjördæmaskipaninni og kosningafyrirkomulaginu sem kveðið er á um í frumvarpinu. Ég er ekki enn búin að átta mig á þýðingu þeirra tillagna sem liggja fyrir þar um og áskil mér lengri tíma til að kynna mér það betur. Hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra Steingrímur J. Sigfússon dustaði rykið af gömlum hugmyndum sínum um þrjú kjördæmi með jafnt vægi þingmanna í ræðu í gær. Mér hugnast slíkar hugmyndir ágætlega, en fyrirkomulagið sem kynnt er til sögunnar í frumvarpinu sjálfu er frekar óáþreifanlegt.

Það vekur reyndar athygli mína að flutningsmenn tillögunnar eru allir af höfuðborgarsvæðinu nema einn, aðeins einn þeirra kemur úr eiginlegu landsbyggðarkjördæmi. Það er athyglisvert, alla vega eins og ég lít á málið, að bara einn komi úr landsbyggðarkjördæmi. Það kann að vera misskilningur, það kemur þá ábending um það héðan úr sal.

Í lok ræðu minnar mundi ég vilja staldra örlítið við 79. gr. og deila með ykkur vangaveltum mínum um hana. Þar segir að forseti skuli ekki sitja lengur en þrjú kjörtímabil. Ég fagna þessu ákvæði og hef lengi verið þeirrar skoðunar að setja eigi slík takmörk. Ég hef jafnvel viljað ganga lengra og líta vestur um haf til Bandaríkjanna í þeim efnum þar sem forseti má ekki sitja lengur en í átta ár. Má þá ekki íhuga að takmarka setutíma alþingismanna? Mundi slíkt ákvæði í stjórnarskrá ekki flýta fyrir endurnýjun í þinginu og tryggja að nýliðar ættu meiri möguleika en ella til að hasla sér völl á þeim vettvangi? Sumir hafa setið á þingi í hálfan mannsaldur. Vissulega er þörf á reynslumiklu liði á Alþingi, en ég mundi halda að með hæfilegum takmörkunum í þessum efnum væri tryggt að reynslan hyrfi ekki af Alþingi.

Þessu skylt langar mig að nefna, þótt slíkt færi að sjálfsögðu ekki í stjórnarskrá, að einstaklingur sem situr í sveitarstjórn og er kosinn á þing þyrfti um leið að segja sig úr sveitarstjórn og öfugt. Ég deili með ykkur þessum vangaveltum mínum eftir margra ára setu í sveitarstjórn.

Virðulegi forseti. Ég hef stiklað á stóru. Eins og komið hefur fram í máli margra þingmanna hér í dag er efnið ærið og hægt að tala um það í marga klukkutíma. Korter verður að duga í fyrstu umferð. Ég er einlæglega þeirrar skoðunar að sú vinna sem nú er að hefjast fyrir alvöru á Alþingi eigi að skila vandaðri og efnislegri meðferð um stjórnarskrá okkar. Ég held að langflestir sem fylgjast með umræðunni á þingi hafi ekki kynnt sér í þaula allt það efni sem hefur verið lagt fyrir og gert opinbert í þessu stóra og viðamikla máli. Það má þó segja um þetta ferli allt eins og það hefur horft við mér, og ég veit að Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur þótt það líka, hefur verið gegnsætt og aðgengi að gögnum gott og aðkoma að málinu með umsögnum verið ágæt. Ég held samt að þetta sé svo gríðarlega stórt og umfangsmikið mál að þorri fólks hafi ekki náð að setja sig inn í það í smáatriðum. Þess vegna held ég að nú þegar það er komið til Alþingis Íslendinga, þar sem sitja 63 þingmenn úr öllum flokkum alls staðar að af landinu, sé það rík skylda okkar að vanda til verka, flýta okkur hægt, ekki stöðva vinnuna eða ýta á pásu heldur að vinna hægt og bítandi og taka tillit til allra þeirra ólíku sjónarmiða sem kunna að vera uppi í málinu. Ég hef þá trú eftir að hafa hlustað hér á marga þingmenn stjórnarliðsins að það verði hægt. Það verða kannski mín síðustu orð í þessari umferð á þinginu að brýna menn og konur til dáða í þessum efnum. Það skiptir okkur öll máli að við getum sameinast um stjórnarskrá Íslands og að breið sátt ríki um hana.