141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birnu Lárusdóttur kærlega fyrir góða ræðu og afar málefnalega. Mikilvægt er að fá inn akkúrat þær greinar sem hún fjallaði um, 105.–108. gr., varðandi sveitarfélögin, því að þar eru lagðar til breytingar.

Það er nefnilega svolítið merkilegt að við lestur greinanna virka þær nokkuð sakleysislegar en þegar farið er yfir greinargerðina sem sérfræðihópurinn gerði kemur ýmislegt í ljós, eins og það að 106. gr. byggist að nokkru leyti upp á reglu frá Evrópusambandinu.

Þar sem við erum að tala bæði um 107. gr. og 108. gr. hefur komið fram að þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpi þessu eru nú þegar í sveitarstjórnarlögum. Því spyr ég þingmanninn: Telur hún það til bóta að setja þessi ákvæði í stjórnarskrá og binda þar með þegar (Forseti hringir.) þessar reglur eru hvort eð er nú þegar komnar í sveitarstjórnarlög?