141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:04]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég biðst forláts á því að hafa staðsett hv. þm. Margréti Tryggvadóttur í höfuðborginni, ég hafði bitið það í mig að hún væri héðan af horninu.

Ég held að nokkuð góð sátt hafi ríkt um stjórnarskrána fram að efnahagshruninu 2008, kannski að því frátöldu að menn greindi á um hvort setja ætti auðlindaákvæði í stjórnarskrá eða ekki. Að öðru leyti held ég að bærileg sátt hafi ríkt um stjórnarskrána. Ég velti til dæmis vöngum yfir þeim orðum sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson lét falla áðan um hver mundi skrifa svona plagg í dag eins og íslensku stjórnarskrána. En ég spyr: Munum við ekki spyrja sömu spurningar eftir tíu ár og finnast þetta þá ósköp púkalegt og hallærislegt plagg, (Forseti hringir.) ef við hlaupum alltaf eftir því hvernig vindar blása hverju sinni? Ég vara við því.