141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:05]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Kannski er þetta mergurinn málsins. Þótt margir hafi haft áhuga á stjórnarskránni fyrir hrun bankakerfisins gerðist hér gríðarlegur atburður haustið 2008 sem við erum enn að vinna úr sem samfélag og við erum að reyna að læra af því. Auðvitað er það ekki svo að stjórnarskráin hafi valdið hruninu, en ég lít svo á, og ég veit að einhverjir eru sammála mér um það, að stjórnarskráin eins og hún er hafi auðveldað hrunið. Þá á ég við að það er erfitt fyrir almenning að grípa inn í, það er erfitt fyrir almenning og þingmenn að fá réttar upplýsingar sem við getum treyst og stjórnskipunin samkvæmt stjórnarskrá er mjög óljós þannig að völdin söfnuðust á hendur tveggja forustumanna stjórnarflokkanna hverju sinni. Það finnst mér mjög hættulegt.