141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:06]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir þeim orðum hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur að stjórnarskráin hefði ekki valdið hruninu. Það er heila málið. Hvort sem stjórnarskráin leit svona út eða hinsegin var hún ekki orsök eða upphaf og endir alls sem tengist efnahagshruninu 2008, þvert á móti. Við girðum hins vegar aldrei fyrir mannlega breyskleika, hvorki í þessu nýja plaggi sem nú hefur litið dagsins ljós og er frumvarp að nýrri stjórnarskrá né hefði það tekist í neinni annarri stjórnarskrá. Núgildandi stjórnarskrá okkar — ég vil undirstrika orðið núgildandi því að við störfum enn þá samkvæmt henni. Mér hefur fundist umræðan hérna snúast svolítið um að þetta frumvarp sé bara orðið að lögum og sé hinn nýi lagabókstafur okkar Íslendinga, en svo er ekki. En ég held að við girðum ekki fyrir það að fólk geri mannleg mistök og virði jafnvel ekki siðferðilega sáttmála hverrar þjóðar.