141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræðumaður tók fyrir greinar sem hafa ekki verið mikið ræddar hér, ég er nú búin að sitja hérna mest allan tímann og fylgjast með umræðunni, það eru greinarnar um sveitarfélögin. Ég get ekki verið alveg sammála þeim sveitarstjórnarmönnum sem hér hafa talað um að breytingin sé ekki mikil frá því sem er nú í stjórnarskrá.

Í 2. mgr. 105. gr. frumvarpsins segir:

„Sveitarfélög skulu hafa nægilega burði og tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum.“

Þetta er nú ekki lítið að það standi í stjórnarskránni að sveitarfélögin eigi að hafa nægar tekjur til að sinna lögbundnum verkefnum sínum.

Og í 106. gr. segir:

„Á hendi sveitarfélaga, eða samtaka í umboði þeirra, skulu vera þeir þættir opinberrar þjónustu sem best þykir fyrir komið undir staðbundinni stjórn þeirra svo sem nánar skal kveðið á um í lögum.“

Þetta eru í mínum huga stórtíðindi. Þetta er sett upp (Forseti hringir.) til mótvægis við það að jafna atkvæðisrétt.