141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:14]
Horfa

Birna Lárusdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru ekki mín orð að ekki hefðu verið gerðar miklar breytingar á því sem lýtur að sveitarstjórnarmálum, það var annar þingmaður í andsvari sem hafði þau orð uppi. Ég held að heilt yfir hafi sveitarfélögin eða Samband íslenskra sveitarfélaga og þeir sem hafa um þessi mál fjallað á þeim bæ ekki gert verulegar athugasemdir við það sem stendur almennt um sveitarstjórnarstigið í frumvarpinu. Þeir hafa hins vegar lagt ríka áherslu á að kveðið sé skýrar að orði í 2. gr. og að þar sé tilgreint að sveitarfélögin séu ásamt ríkisvaldinu hitt stjórnsýslustigið í landinu. Sveitarfélögin vilja gjarnan fá þetta eina orð, sveitarfélög, inn í 2. gr. frumvarpsins. Ég vil taka undir þær áskoranir sveitarfélaganna. Ég held að enginn væri að bakka með eitt eða neitt með því að stinga þessu orði þarna inn og gera sveitarfélögunum þar með jafnhátt undir höfði. Ég sagði ekki (Forseti hringir.) að ekki hefðu verið gerðar miklar breytingar.