141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að hluti af markmiðinu með kjördæmafyrirkomulaginu sé að menn skipti með sér verkum? Vissulega er það rétt sem hv. þingmaður segir að þingmenn eiga að gæta hagsmuna landsins alls, og ég held að flestir eða allir þingmenn nálgist verkefnið á þann hátt, en það er praktískt atriði að menn skipti með sér verkum þegar fylgjast þarf með þörfum ákveðinna svæða og tiltekins fólks. Þar verða menn að taka með í reikninginn að Ísland er býsna stórt land miðað við mannfjölda og ekki hægt annað en að menn skipti því á milli sín með hvaða svæðum þeir fylgjast öðrum fremur, þó að þeir gæti heildarhagsmuna í leiðinni. Þegar við gætum hagsmuna ákveðinna svæða, hvort heldur sem er höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarkjördæma, gætum við um leið heildarhagsmuna. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé sammála mér um að hagsmunir höfuðborgar og landsbyggðar fari saman.

Hv. þingmaður nefndi einnig persónukjör. Það er rétt að töluverð krafa er um aukið persónukjör, ég held að það megi fullyrða út frá umræðunni, skoðanakönnunum og öðru. Er hv. þingmaður sammála mér um að ekki megi ganga of langt í því? Það má ekki verða þannig að flokkar og hópamyndanir séu algjörlega teknar út úr myndinni vegna þess að það skapar hættuna á því að eingöngu frægt fólk geti tekið þátt í stjórnmálum. Ef menn hafa engan vettvang til að byggja upp pólitískan feril, starfa innan flokks, kynna sig þar og vinna með hópi í aðdraganda þess að menn verða þingmenn, er hættan sú að eingöngu þeir sem eru þekktir fyrir nái kjöri á þing