141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:16]
Horfa

Guðrún Erlingsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er gleðilegt og forréttindi að geta tekið til máls á Alþingi í umræðunni um nýja stjórnarskrá. Það er gott að búa í lýðræðisríki þar sem mannréttindi eru virt og þjóðin sjálf fær að koma að gerð nýrrar stjórnarskrár.

Vinna við gerð frumvarps til stjórnarskipunarlaga er viðamikil og frumvarpið farið til umræðu og skoðunar hjá ólíkum hópum eins og áður hefur komið fram. Kosning og niðurstaða stjórnlagaráðs var vel heppnuð að mestu leyti og þjóðaratkvæði í kjölfarið var sögulegt og svo mætti lengi telja.

Sitt sýnist hverjum um breytingar á stjórnarskránni og er það vel. Það getur aldrei orðið svo að allir verði sammála um allt það sem sett er fram í stjórnarskrá. Það er mjög mikilvægt að umræðan um tillögur að nýrri stjórnarskrá verði málefnaleg.

Ég mun í ræðu minni fara í nokkrar greinar frumvarpsins og vil byrja á því að lýsa ánægju minni með 19. gr. um kirkjuskipun. Ég tel það þjóðinni til heilla að hafa evangelíska lúterska þjóðkirkju, studda og verndaða af ríkisvaldinu.

18. gr. tryggir öllum rétt til trúar- og sannfæringarfrelsis. Þeir sem kjósa að standa utan þjóðkirkju hafa til þess fullt frelsi

23. gr. um heilsu og heilbrigði á að tryggja öllum aðgengilega, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Þetta er nýtt ákvæði í stjórnarskrá sem á að skoða með opnum huga. Það er ekki öllum að skapi að ná heilsu eða halda heilbrigði eftir hefðbundnum leiðum heilbrigðiskerfisins. Sumir vilja nota það sem kallast heildrænar meðferðir, meðferðir sem ekki eru greiddar niður af almannatryggingum, og það þarf að tryggja að einstaklingar hafi val þegar kemur að heilsu og heilbrigði.

31. gr. um bann við herskyldu sýnir einn af mörgum kostum þess að búa á Íslandi. Eins og fram hefur komið hér í umræðum um stríðshrjáð lönd er hlustað á rödd Íslands sérstaklega í ljósi þess að við erum herlaus, friðsöm þjóð. Hvers er hægt að óska sér betra?

Í 34. gr. um náttúruauðlindir kemur skýrt fram að auðlindir í náttúru landsins eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar, ef þær eru ekki háðar einkaeignarrétti. Það þarf að vera alveg skýrt við hvað er átt með þessari grein og hvað það er sem undanskilur sameign þjóðarinnar frá einkaeignarrétti.

65. og 66. gr. fjalla um aðkomu þjóðarinnar að breytingum á lögum, þjóðaratkvæðagreiðslur og þingmál að frumkvæði kjósenda. Þessar greinar eru mjög til bóta og styrkja enn frekar lýðræði á Íslandi.

89. gr. fjallar um ráðherra og Alþingi. Ég er sammála því að skilja betur á milli löggjafar- og framkvæmdarvalds. Þetta er vissulega breyting frá því sem áður var en það er mín trú að þetta sé til bóta.

106. gr., nálægðarregla, er kærkomin breyting þar sem hnykkt er á þeirri staðreynd að nærþjónusta íbúa sé í mörgum tilfellum betur komin hjá sveitarfélögunum í stað ríkisins. Það er til mikils að vinna að brúa þá gjá sem ríkir á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Við erum fámenn þjóð og ættum að geta lifað í sátt og samlyndi og stýrt á milli okkar gæðunum án þess að skipa okkur í fylkingar.

Virðulegi forseti. Ég læt hér staðar numið. Það er ósk mín að Alþingi beri gæfu til að ræða nýja stjórnarskrá málefnalega og tekið verði tillit til ábendinga sem gera hana betri. Það er nú í höndum þingmanna og ég hvet þá til að sýna þjóðinni og stjórnarskránni þá virðingu sem hún á skilið.