141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Ég skal láta það liggja á milli hluta að við séum ekki sammála, en vissulega er það mjög alvarlegt þegar ráðherrar eru dæmdir fyrir æðsta dómstól landsins, sérstaklega fyrir þau ákvæði sem snerta stjórnarskrána. Skemmst er að minnast hinna svokölluðu Árna Páls-laga sem gengu hreinlega á móti íslensku stjórnarskránni varðandi afturvirkni laga og fleiri dæmi mætti nefna. Ég skal alveg bera virðingu fyrir því að þingmaðurinn vilji ekki ræða það óþægilega mál í þessum umræðum, en það er skýrt að ríkisstjórnin hefur þrisvar, ef ekki fjórum sinnum, farið fram með mál í þinginu sem hafa brotið gegn stjórnarskrá. Það minnir okkur á hve nauðsynlegt það er að koma hér á stofn lagaráði eða lagaskrifstofu. Sú tillaga hefur legið fyrir þinginu í þrjú ár og á rætur að rekja til ársins 1992.

Þá langar mig til að beina spurningu til hv. þingmanns varðandi kosningakaflann. Hún svaraði því ágætlega varðandi atkvæðin og að hér yrði lagt til einn maður, eitt atkvæði. Hefur þingmaðurinn skoðað það sem stendur í 39. gr. um að leitast skuli við að hafa sem jafnast hlutfall kvenna og karla á Alþingi, en samt á að viðhafa persónukjör? Hvernig á það að ganga upp í framkvæmd, að viðhafa persónukjör en samt skuli vera ákvæði í lögum um jafnan rétt karla og kvenna? Er ekki verið að skerða mannréttindi mín samkvæmt stjórnarskránni? Það stendur í frumvarpinu að það skuli viðhafa persónukjör og ég sem einstaklingur geng til alþingiskosninga og kýs, en samt getur úrslitum sem sýna vilja landsmanna verið breytt vegna ákvæðisins um að gæta skuli jafns réttar karla og kvenna.