141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:37]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir nauðsynlega spurningu fyrir þetta mál. Þar sem þingmaðurinn fór yfir þetta í ræðu sinni áðan og vannst ekki tími til að spyrja út í það er ég þakklát fyrir að fá þessa spurningu nú.

Þegar sérfræðihópurinn skilaði af sér til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar varaði hópurinn einmitt við því að þarna væri enn á ný verið að blanda saman hlutum sem ættu ekki heima í stjórnarskrá. Sérfræðihópurinn hafði ekki umboð til að koma með efnislegar breytingar, en benti á að þarna væri verið að setja inn einkaréttarleg ákvæði sem ættu raunverulega ekki heima í stjórnarskrá því að við höfum almenn lög sem einkaaðilar geta byggt dómsmál sín á. Þarna er til dæmis ákvæði sem snýr að því að öllum skuli tryggð friðhelgi fyrir ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, en það á ekki að vera í stjórnarskrá því að við höfum refsilög sem tekur á þeim málum og höfðuð eru einkamál út af.

Þingmanninum til upplýsingar var ákvæði 5. gr. hvorki meira né minna en sótt til Suður-Afríku og sett inn í tillögu að stjórnarskrá Íslands. Við getum náttúrlega ekki verið að hreinsa upp allar stjórnarskrár heimsins og blanda saman í eitt plagg og ætlast til þess að Íslendingar samþykki það. Þetta var sótt til Suður-Afríku, takk fyrir. Þingmaðurinn fór í ræðu sinni hér áðan yfir mannhelgina, það ákvæði var sótt í þýsku stjórnarskrána. Gott og vel, auðvitað eigum við að hafa til hliðsjónar stjórnarskrár heimsins, en ekki taka brot af því besta og búa til eitt plagg á íslensku og kalla það frumvarp til laga að stjórnarskrá Íslands. Var ekki verið að kvarta yfir því að stjórnarskráin sem er í gildi hafi verið sótt til Danmerkur?