141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég var reyndar ekkert að tala um dýr, ég var að tala um vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi innan heimilis og utan, sem er 10. gr. Í skýringum um 10. gr. er vikið að ýmsum sáttmálum sem við höfum gengist undir, sem ættu að tryggja þetta. Ég sé ekki af hverju ákvæðið ætti ekki að vera í stjórnarskrá. Mér finnst það gríðarlega mikilvægt og ljóst er að stjórnvöld eru skuldbundin vegna þess að þau hafa skrifað undir ýmsa samninga og undirgengist ýmsa samninga. Þeim ber að grípa til lagasetningar og annarra viðeigandi samfélagslegra aðgerða til að reyna af öllu mætti að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi og annað ofbeldi, bæði innan heimilis sem utan. Mér finnst fullkomlega eðlilegt og rétt að stjórnarskrárbinda rétt okkar borgaranna til að vera laus við ofbeldi.