141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga og ég fagna því að það skuli vera komið til efnislegrar umræðu í þinginu þó að eingöngu sé um 1. umr. að ræða.

Mig langar að ræða það sem stendur í 2. gr. og tek undir með hv. 1. þm. Norðvest., Birnu Lárusdóttur, hvað þá grein varðar. 2. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Uppspretta ríkisvalds og handhafar þess. Allt ríkisvald sprettur frá þjóðinni og beitir hún því annaðhvort beint eða fyrir milligöngu handhafa þess. Alþingi fer með löggjafarvaldið.“

Síðan stendur:

„Forseti Íslands, ráðherrar og ríkisstjórn og önnur stjórnvöld …“ — Ég verð að viðurkenna að ég velti fyrir mér hver eru þessi önnur stjórnvöld séu sem eiga að fara með framkvæmdarvaldið. Ef þar er átt við sveitarstjórnir sem fara með vald á sveitarstjórnarstigi finnst mér nær að nefna sveitarstjórnir með nafni og segja einfaldlega „sveitarstjórnir“. Ég man ekki hvort þess er sérstaklega getið í 2. gr. eða umsögn um 2. gr. hver þessi „önnur stjórnvöld“ eru en það mun þá bara koma í ljós síðar þegar farið verður frekar yfir það.

En það er annað. Hér stendur: „Alþingi fer með löggjafarvaldið.“ Það er hins vegar algerlega ljóst að forseti Íslands er að hluta til með löggjafarvaldið vegna þess að í 60. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga undirritar forseti Alþingis það og leggur innan tveggja vikna fyrir forseta Íslands til staðfestingar og veitir undirskrift hans því lagagildi.“

Það er þá ljóst að forseti Íslands er ekki bara aðili að framkvæmdarvaldinu, hann er einnig aðili að löggjafarvaldinu vegna þess að engin lög öðlast lagalegt gildi nema með undirritun forseta Íslands. Þannig eru 2. gr. og 60. gr. frumvarpsins í andstöðu hvor við aðra og það þarf að skoða og laga. Annaðhvort þarf að bæta inn í 2. gr. að forsetinn hafi löggjafarvaldið að hluta til í samræmi við 60. gr. eða þá, sem væri nær ef forsetinn á eingöngu að vera framkvæmdarvaldið, að taka það út að forseti Íslands þurfi að undirrita lög frá Alþingi til að þau öðlist lagagildi. Það nægi að forseti Alþingis gerir það.

Ég vil líka benda á að um hina annars umtöluðu 26. gr. í stjórnarskrá Íslands er ekki neitt rætt í kaflanum um sjálfan forsetann heldur er hún í 60. gr. í Alþingiskaflanum þar sem fram kemur að forseti Íslands geti ákveðið innan viku hvort hann hyggst synja frumvarpi staðfestingar eður ei. Búið er að taka það vald forsetans úr kaflanum um forseta Íslands og færa það inn í 60. gr., sem stangast á við 2. gr. frumvarpsins. Ég bið hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að skoða það frekar.

Ég tek fram að margt í frumvarpinu er af hinu góða en það eru þó ýmis atriði sem maður hnýtur um sem vert er að skoða. Mig langar í því sambandi að skoða 43. gr. sem fjallar um Alþingi og ég fjalla fyrst og síðast um Alþingi. Þar er kallað á verulega efnisbreytingu. Alþingi kýs landskjörstjórn en hingað til hefur kjörnefnd á vegum Alþingis skoðað og farið yfir kjörbréf og annað slíkt. Nú er það landskjörstjórnar að skoða þau og er henni heimilt að skjóta málum til Hæstaréttar eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum og öðrum úrskurðum landskjörstjórnar verður skotið til dómstóla eftir almennum reglum. Ef þetta er það sem við ætlum að taka upp hljótum við að þurfa að horfa á 44. gr. líka vegna þess að Alþingi kemur saman eigi síðar en tveimur vikum eftir hverjar alþingiskosningar, segir í þeirri grein. Það stangast verulega á við 41. gr. Ef landskjörstjórn telur að ekki sé hægt að gefa út kjörbréf þá er heldur ekki hægt að kalla þing saman tveimur vikum eftir nema öll málin hafi flýtimeðferð. Í 41. gr. er því tekið upp algerlega nýtt kerfi við staðfestingu kjörbréfa og ég bið hv. nefnd um að skoða hvernig hún hyggst horfa til þessara tveggja greina.

Í 44. gr. segir að í lögum skuli kveðið á um samkomudag reglulegs Alþingis og skiptingu starfstíma þess í löggjafarþing. Þess er hvergi getið í hinu nýja frumvarpi hvenær Alþingi skuli koma saman nema í sérstökum lögum. Þá velti ég fyrir mér og spyr þá fulltrúa sem eru í nefndinni: Til hvaða laga erum við þá að vísa sem eiga að segja til um hvaða dag að hausti þingið kemur saman? Alþingi á að koma saman eftir að þing hefur verið kjörið að loknum kosningum, þá eru það tvær vikur. Hvaða lög eiga svo að ákveða hvenær þing á að koma saman aftur að hausti? Það er einfaldlega ekki skýrt í frumvarpinu og ég velti fyrir mér í hvaða lögum það eigi að standa.

Síðan stendur í 46. gr.:

„Forseti Íslands stefnir saman Alþingi að loknum alþingiskosningum og setur reglulegt Alþingi ár hvert.“

Í raun er þess hvergi getið hvenær Alþingi á að koma saman nema að afloknum kosningum. Mér sýnist að 41. gr. sé nokkuð samhljóða 33. gr. gildandi stjórnarskrár. Mér sýnist líka að 39. gr. sé í takt við 31. gr. en þar eru gerðar töluverðar breytingar á kosningafyrirkomulagi sem er stór þáttur í 39. gr. Ég tel að fara þurfi mjög vel í gegnum með hvaða hætti þetta skuli fara fram. Það er kannski ýmislegt spennandi og ýmsar nýjungar þarna á ferðinni en ég held að það þurfi að skoða nánar með hvaða hætti menn eiga að framfylgja þessu.

Ég bendi aftur á að margar af þeim greinum sem hér eru eru nokkurn veginn samhljóma gildandi stjórnarskrá, a.m.k. efnislega, en í öllum greinum er orðalagi breytt með einum eða öðrum hætti. Það er oft bitamunur en ekki fjár en maður veltir fyrir sér af hverju í ósköpunum fólk eyddi tímanum í það.

Í 62. gr. segir:

„Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.“

Nánar skal mælt fyrir um Lögréttu í sérstökum lögum. Þá velti ég fyrir mér: Í hvaða lögum? Þetta er bundið í stjórnarskrá. Í hvaða lögum á þá að mæla fyrir um með hvaða hætti þetta skuli gert? Skipum við fólk hér til fimm ára? Það er þá væntanlega fólk sem starfar í anda þess sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt til, að verði sett á fót lagaskrifstofa á Alþingi. Við ætlum að binda Lögréttu í lög sem á að vera þingnefndum til aðstoðar um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá o.s.frv. Erum við að setja á laggirnar eina stofnunina enn sem bundin er í stjórnarskrá eða er þetta eitthvað sem við getum velt fyrir okkur með tilliti til Alþingis sjálfs og þá lagaskrifstofu Alþingis?

Síðan verð ég að viðurkenna að 66. gr., þar sem eru þingmálafrumkvæði kjósenda, veldur mér kannski ekki hugarangri en ég þarf verulega að brjóta heilann um eftirfarandi: Hver á að mæla fyrir frumvarpi eða þingsályktunartillögu sem kjósendur leggja fyrir Alþingi? Hverra er það á þingi að taka við því verkefni og mæla fyrir því máli í þinginu, senda það til umsóknar og annað? Það er algerlega í lausu lofti hvernig fara á með það og hver tala á fyrir slíku frumvarpi. Ég held að þingið sjálft og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd verði aðeins að velta fyrir sér með hvaða hætti taka á á þeirri nýjung. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég ætla hins vegar að velta fyrir mér 84. gr., um virðulegan forseta, vegna þess að hún er nokkuð samhljóma 11. gr. í gildandi stjórnarskrá að því undanskildu að rætt er um að 3/4 hlutar alþingismanna geti farið fram á að forseta verði vikið frá störfum. Það þarf að vera undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki er rætt meira um það í greininni hvað gert verður verði þeirri beiðni Alþingis synjað í þjóðaratkvæðagreiðslu. En það er algerlega skýrt í 11. gr. gildandi stjórnarskrár að verði tillaga Alþingis ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga.

Ég velti fyrir mér af hverju þessi þáttur úr 11. gr. gildandi stjórnarskrár er tekinn út í 84. gr. frumvarpsins, en þar segir að þingið geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um að víkja forseta úr embætti en hafni þjóðin því þá sé það bara þannig. Það væri fróðlegt að vita af hverju það er fellt brott vegna þess að ég tel að það hljóti að skipta máli.

Ég sé að tíminn líður hratt en mig langar að gera tvennt enn að umtalsefni. Í fyrsta lagi er það 89. gr., um ráðherra og Alþingi. Ef ráðherrar eru skipaðir úr hópi alþingismanna ber þeim að víkja sem þingmenn. Það er hins vegar gersamlega verið að múlbinda ráðherra að mínu mati með þessari grein. Hér stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Ráðherrar mæla fyrir frumvörpum og tillögum frá ríkisstjórn, svara fyrirspurnum og taka þátt í umræðum á Alþingi eftir því sem þeir eru til kvaddir …“

Ráðherra kemur í þinghúsið samkvæmt þessu þegar hann er til kvaddur. Hann getur ekki verið í þingsal og tekið þátt í umræðu um mál á eigin forsendum miðað við það sem hér stendur vegna þess að hann tekur bara þátt í því sem hann er kvaddur til. Þannig skil ég þennan texta, virðulegi forseti. Mér finnst það skelfileg tilhugsun fyrir verðandi alþingismenn sem gefa kost á sér til þess starfa, þá lenda þeir í þeirri ógæfu, samkvæmt 89. gr., að vera valdir til að vera ráðherrar. Þeir eru múlbundnir nema félagar þeirra í þinginu óski eftir að þeir komi sérstaklega í þingsal til að ræða málin. Það er eins óspennandi og hugsast getur að vera ráðherra.

Síðan er rætt um stjórnarmyndun í 90. gr. Það er gersamlega ný nálgun. Hér getur orðið stjórnarkreppa eftir hvert einasta þing eftir að Alþingi kýs forsætisráðherra, þannig er það að mínu mati, ég get ekki talað fyrir aðra. Ég segi nú bara: Já, sæll! Af hverju kýs þjóðin þá ekki bara forsætisráðherra? Væri það ekki heilbrigðara að þjóð hefði þar hönd í bagga og kysi forsætisráðherrann?

Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins um forsætisráðherra. Það er forsetinn sem gerir tillögu til þingsins um það (Forseti hringir.) að velja forsætisráðherra eftir alþingiskosningar. Það er grein sem ég tel að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þurfi að fara verulega vel ofan í saumana á. (Forseti hringir.) Ef breyta á fyrirkomulagi stjórnarmyndunar látum þá þjóðina bara kjósa þann forsætisráðherra sem hún vill hafa.