141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Hún komst mjög vel að kjarna málsins, um hvað stangast á í frumvarpinu og jafnframt þær þrengjandi nýjungar sem verið er að taka inn í málið varðandi stjórnarskipun Íslands. Ég hef verið svolítið í ræðum mínum og andsvörum í dag að tala um önnur mál en nú skulum við tala akkúrat um þessi mál.

Til dæmis um ráðherra sem hv. þingmaður fór yfir. Þegar þeir koma fyrst inn í þingið undirrita þeir eðlilega sem þingmenn drengskaparheit að stjórnarskránni. Það er komið ákvæði í frumvarpið að því leyti að þegar ráðherra verður ráðherra skal hann undirrita drengskaparheit, það er tvítekning. Ekki er nóg með það heldur er líka verið að blanda embættismönnum inn í það drengskaparheit, nú mega þeir ekki taka til starfa samkvæmt frumvarpinu nema þeir undirriti drengskaparheit að stjórnarskránni.

Að mínu mati er verið að útþynna þarna mjög mikilvægi þess að þingmenn skuli vera bundnir sannfæringu sinni í störfum sínum með því að láta þetta ganga á einhvern hátt niður alla línuna. Það er hægt að leysa það öðruvísi.

Úr því að hv. þingmaður fór svona vel yfir hvernig ætti að skipa forsætisráðherra þá er ekki síður athyglisvert hvað á að gerast verði upplausn í þinginu og ríkisstjórnin missi meiri hluta sinn. Þá hafa þingmenn ekki leyfi til þess að lýsa yfir vantrausti á forsætisráðherra og ríkisstjórnina sem viðkomandi stýrir og viðkomandi forsætisráðherra þá að fara til forseta Íslands á Bessastöðum og fá lausn frá embætti. Nei, stjórnarandstaðan á að vera tilbúin með annað forsætisráðherraefni áður en vantraustinu er lýst yfir.

Virðulegi forseti. Það er nánast ekkert sem gengur upp í þeim tillögum. (Forseti hringir.) Samkvæmt frumvarpinu er ekki lengur leyfilegt að lýsa (Forseti hringir.) yfir vantrausti á ríkisstjórn (Forseti hringir.) og boða til kosninga.