141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni hennar hugleiðingar en það er kannski akkúrat 90. gr. þar sem sagt er að Alþingi kjósi forsætisráðherrann. Það eru tveir aðilar í raun, það er forseti Íslands sem gerir tillögu um forsætisráðherrann en ef sú tillaga er ekki samþykkt getur þingið gert tillögu og þá er kosið á milli tillögu þingsins annars vegar og tillögu forsetans hins vegar, þegar við erum að ræða um forustumann í ríkisstjórn Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er réttkjörinn forsætisráðherra.

Virðulegur forseti. Mér finnst að við þurfum að skoða það frekar. Ég er reyndar sama sinnis og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, ég sé ekki að það þurfi að binda í lög, og þá veltir maður fyrir sér hvaða embættismönnum ber að undirrita eið að stjórnarskránni. Er það öllum embættismönnum ríkisins? Er það embættismönnum stjórnvalda samkvæmt 2. gr. I. kaflans um uppsprettu ríkisvalds og handhafa þess? Eru það þá allir embættismenn þar sem þurfa að undirrita eið að stjórnarskránni?

Ég er sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að í 91. gr. um vantraustið kemur í raun og veru ekki fram, og það kann að vera annars staðar en ég hef ekki séð annað um vantraust en 91. gr., og þar er hvergi kveðið á um annað en að í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans. Ráðherra er veitt lausn frá embætti ef meiri hluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meiri hluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra. Hins vegar (Forseti hringir.) er þess hvergi getið að þá skuli þing rofið, virðulegur forseti, og alþingiskosningar fari fram eða hvort þá skuli reynt að mynda nýja ríkisstjórn. Það kann að vera að þetta séu atriði sem öllum eiga að vera ljós en þau eru ekki ljós í (Forseti hringir.) stjórnarskránni.