141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég skil mæta vel að þegar hlutum er breytt eru þeir ekki eins og þeir voru en við erum að fjalla um breytingu á stjórnarskipunarlögum og ég var að velta fyrir mér þeim greinum sem hér eru sem ég tel að þurfi frekari skýringar og beindi því til nefndarinnar. Það er ágætt að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir svari því en ég held að þess sé nú getið í gildandi stjórnarskrá hvenær Alþingi eigi að koma saman sem við höfum reyndar síðan breytt í þingskapalögum og fært það fram á þriðjudag. Það er þá bara fínt og nokkuð ljóst hvar og í hvaða lögum menn ætli sér að setja þing. Ég geri engar athugasemdir við það.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hún orðaði það akkúrat þannig að þegar hlutum er breytt þá eru þeir ekki eins og þeir voru. Hvernig sér hún 43. gr. og 44. gr. spila saman sem er annars vegar gildi kosninga, kjörbréfin sem landskjörstjórn gefur út, og síðan aftur ef einhver vandkvæði verða með þau kjörbréf hvernig er þá hægt að framfylgja 44. gr. um að þing eigi að koma saman tveimur vikum eftir hverjar alþingiskosningar? Það var ein af þeim spurningum sem ég velti upp og hef áhuga á að hv. þingmaður svari, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem veit ívið meira en við hin sem höfum lesið það nú sem og fyrr en höfum kannski ekki fjallað um það á sama hátt og hv. nefnd. Þannig ég spyr hv. þingmann hvernig hann sjái þessar tvær greinar spila saman og hvort hún telji að það þurfi að skoða 43. gr. miðað við 44. gr.