141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel að það þurfi að gera og þetta er einmitt eitt af því sem lögfræðingarnir fjórir sem hafa verið að vinna fyrir okkur sögðu að þyrfti að skoða sérstaklega. Mér fannst eins og þeir hefðu sett það inn í bráðabirgðaákvæði en væntanlega er það villa hjá mér. Tímans vegna var talað um að það þurfi að athuga sérstaklega vegna þess að tíminn gæti orðið of stuttur.

Síðan ætlaði ég aðeins að koma inn á ráðherrana. Nú er það lagt til í þessari stjórnarskrá sem hefur verið áhugaefni mitt um árabil, að ráðherrar segi af sér þingmennsku þegar þeir gerast ráðherrar og þegar þeir eru til kvaddir þá þýðir það að þeir geti tekið þátt í umræðum um þau mál sem þeir flytja. Þeir eru til kvaddir þegar málin sem þeir flytja og eru ábyrgir fyrir eru á dagskrá en þeir hætta að vera þingmenn og hætta þess vegna að taka þátt í öðrum málum en sem snerta sviðið sem þeir bera ábyrgð á.

Síðan er talað um stjórnarmyndunina og hlutverk forseta Íslands í henni. Ég held í raun að það sé ekki jafnmikil breyting þar og virðist vera á pappír vegna þess að forseti Íslands kallar náttúrlega stjórnaroddvita eða formenn stjórnmálaflokka á sinn fund, (IllG: Nei, ekki alltaf.) Jú, jú, hann gerir það, þeir tala saman. (Gripið fram í: Nei. Hann gerir það ekki.) Jú, jú. Hann felur einhverjum stjórnarmyndun. Nú er það þingið sem er í aðalhlutverki en ekki formenn stjórnmálaflokkanna.