141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir að það megi skoða að ráðherrar eigi ekki jafnframt að vera þingmenn. Mér finnst hins vegar að með því sé einfaldlega verið að múlbinda ráðherrann þannig að hann er gjörsamlega aðskilinn frá öllu því sem hann er kjörinn inn á þing til þess að gera. Það er meira að segja í því sem hérna stendur á blaðsíðu 209, með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. er nýmæli, að tillögu stjórnlaganefndar, um að ráðherrar hafi ekki atkvæðisrétt á Alþingi. Þetta er meðal annars að norskri, sænskri og hollenskri fyrirmynd. Það þýðir meðal annars að ráðherrar eiga ekki lengur fastan seturétt á þingflokksfundum. Þetta eykur aðskilnað löggjafar- og framkvæmdarvalds.“

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta næstum vera útilokun þess þingmanns sem kjörinn er, að hann taki sæti í ríkisstjórn og verði ráðherra og er þá gjörsamlega orðinn aðili einhvers staðar úti í bæ, vinnandi í ráðuneyti og hefur ekki setu á þingflokksfundi með samherjum sínum til þess að ræða mál eða annað í þeim dúr.

Virðulegur forseti. Ef þetta er hugsunin þá segi ég bara enn og aftur: Mikið ótrúlega er þá óspennandi að fá að verða ráðherra í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Frá mínum bæjardyrum séð finnst mér menn vera að múlbinda þann sem tekur sæti í ríkisstjórn, útiloka hann frá samskiptum á þingflokksfundum og öðru þess háttar. Ef það er það sem á að gera hér.

Virðulegur forseti. Ég segi bara enn og aftur, þetta hugnast mér ekki og ef það fylgir því að ráðherrar eigi ekki að vera þingmenn, að þeir séu múlbundnir þannig og hafi ekki einu sinni samneyti við samherja sína á þingflokksfundum finnst mér verr af stað farið en heima setið.