141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað eitt af því sem skiptir verulega miklu máli að átta sig á að stjórnarskrá okkar og stjórnarskrár annarra vestrænna ríkja eiga sér sameiginlegan uppruna, sameiginlegan hugmyndaheim sem varð ekki til á einni nóttu og varð heldur ekki til fórnalaust. Mér hefur alltaf fundist hálfundarlegt að tala um einhvers konar séríslenska stjórnarskrá. Ég held að það sé í sjálfu sér merkingarlaust hugtak. Það er stjórnarskráin sem ver okkur borgarana fyrir ofríki ríkisins og ríkisvaldsins, sem byggir einmitt á hugtökum og hugmyndafræði sem hefur þróast á Vesturlöndum yfir langan tíma.

Það er hættulegt, virðulegi forseti, að ætla sér að leita allt að því hugsunarlaust að fordæmum og reyna að búa til einhvers konar bútasaum héðan og þaðan, vegna þess að það er ýmislegt í stjórnarskrám ríkja þrátt fyrir hinn sameiginlega uppruna sem getur endurspeglað sérstakar aðstæður í þeim löndum. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti einmitt á Sviss sem eitt af þeim löndum þar sem eru sérstakar aðstæður og sérstök rök fyrir beitingu þjóðaratkvæðagreiðslna með jafnríkulegum hætti eins og þar er. Ég held að ákvæði 65. gr. og 66. gr. frumvarpsins sé eitthvað sem við verðum að skoða mjög vel. Við verðum að spyrja okkur hvort við viljum fara þá leið á sama tíma og við erum með málskotsrétt forseta í þeim skorðum sem settar eru upp í þessum drögum og um leið líka það fyrirkomulag sem við höfum hér varðandi flokkakerfi eða persónukjör eða starfsemi þingsins. Það er ekki gott (Forseti hringir.) að rugla saman mismunandi kerfum og ég vonast til þess að það komi einhver góð niðurstaða þrátt fyrir allt.