141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var mjög athyglisvert sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði í upphafi andsvars síns að það er raunverulega verið að kalla eftir alíslenskri stjórnarskrá. Auðvitað ber okkur að líta til annarra landa við leiðréttingar og breytingar á stjórnarskránni okkar en þess má geta að íslenska stjórnarskráin er byggð á grunni frönsku byltingarinnar 1789 og þeirri frönsku stjórnarskrá sem kom í kjölfarið 1791 og svo breiddist þessi friðarbylgja út til heimsins alls, ég nefni stjórnarskrá Bandaríkjanna. Þetta er réttarheimspeki og réttarþróun sem hefur átt sér stað um alla veröldina. Það er því einkennileg krafa að allt í einu núna árið 2012 þurfi Íslendingar séríslenska stjórnarskrá en samt er efni frumvarpsins sótt út um allan heim. Þarna er eitthvað sem gengur ekki alveg upp í mínum huga.

Við sækjum að sjálfsögðu uppskrift að stjórnarskrá okkar til Danmerkur vegna þess að Danmörk var okkar nánasta vinaþjóð á þessum tíma. Hér á landi höfum við líka sótt mjög í norræna löggjöf eftir fordæmum, enda eru Íslendingar ekki að finna upp hjólið að þessu leyti, stjórnskipunarréttur verður að vera stöðugur sem og stjórnarskrá hvers ríkis. Þess vegna er það jafnframt mín skoðun að það eigi að breyta stjórnarskrá í litlum skrefum en ekki koma með svona byltingarkennt plagg sem umbyltir stjórnskipunarréttinum og hefðunum.

Þess vegna langar mig til að spyrja þingmanninn: Telur hann að það sé einhver möguleiki á því að ná sátt í þinginu í stjórnarskrármálum, að það verði samkomulag um breyta á einhvern hátt þeim þáttum og lagagreinum í stjórnarskránni sem hafa verið umdeildar undanfarin ár og (Forseti hringir.) setja til dæmis inn auðlindaákvæði til að skapa sátt í samfélaginu? Plaggið þarf að fara í gegnum samþykkt tveggja þinga (Forseti hringir.) og það veit enginn hvernig meiri hlutinn verður eftir kosningar.