141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

opinber innkaup.

[10:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Ég skil svör ráðherra með þeim hætti að ekki sé verið að færa útboðsmál úr höndum Ríkiskaupa yfir til stofnana. Þá vil ég spyrja: Til hvaða úrræða geta fjármálaráðherra og Ríkiskaup gripið gagnvart þeim ríkisstofnunum sem ekki virða slíka rammasamninga?

Ráðherra spurði um dæmi. Til dæmis hefur Landspítali – háskólasjúkrahús óskað eftir því að sjá sjálfur um sín innkaup og selja síðan til annarra heilbrigðisstofnana. Þá er spurningin: Hver á að fá mismuninn af því að dreifa hlutunum til stofnananna, því að þetta kostar væntanlega bæði starfsmenn og tíma? Ef innkaupin eru ekki í höndum Ríkiskaupa og stofnanir sitja ekki við sama borð, á þá risinn markaðnum að skammta hinum og taka hluta af rekstrargjöldum þeirra til sín? Það er að hluta til ástæða fyrirspurnarinnar, en ég vildi einnig vita hvort sambærileg dæmi væru til og til hvaða úrræða ráðuneytið og ráðherra gætu gripið til að bregðast við slíku.