141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

Drómi fjármálafyrirtæki.

[10:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þegar sú ríkisstjórn sem nú situr tók við var mikil umræða um það meðal hæstv. ráðherra, stjórnarliða og stuðningsmanna þeirra að nú væru breyttir tímar, nú væri komin ný verkstjórn og verkstjórinn væri sjálfur hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Þá yrði nú annað verklag haft en áður. Það er því útilokað annað, þegar kemur að stærstu málunum sem varða fólkið í landinu, en að hæstv. forsætisráðherra hafi beint komið að þeim.

Ég vil spyrja um mál sem margir finna fyrir og engin haldbær svör hafa komið við: Af hverju var Drómi stofnaður? Af hverju var verklagið eins og raunin varð? Í kjölfar neyðarlaganna voru stofnaðir nýir bankar á grunni þeirra gömlu og hefur það verið ákveðin vernd fyrir viðskiptavini þeirra banka, en það var ekki í þessu tilfelli. Hér voru innlánin sett inn í Arion banka á lágum vöxtum en síðan var stofnað sérstakt innheimtufélag, Drómi, sem ekki er í neinum öðrum verkefnum en að innheimta. Finnst mörgum mjög hart gengið fram, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, gagnvart viðskiptavinum gamla SPRON. Af því hefur hlotist allra handa ójafnræði sem of langt mál er að fara í hér.

Ég spyr að tvennu: Af hverju var þessi leið farin? Af hverju var Drómi stofnaður? Og síðan: Af hverju fá kröfuhafar Arion banka meðgjöf frá Dróma? Þá vísa ég til munarins á vöxtum sem skuldabréf sem gefin voru út af Dróma og Arion banki fær og innlánsvöxtunum á reikningunum sem fara til Spron. Af hverju fengu menn þá meðgjöf og af hverju var sú leið farin að stofna Dróma?