141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

Drómi fjármálafyrirtæki.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir það að saga Dróma er ein sorgarsaga frá upphafi og hefur komið niður á viðskiptavinum sem ekki hafa fengið sömu fyrirgreiðslu og verið hefur í bankakerfinu. Það er öllum ljóst að það er eitthvað mikið að í samskiptum Dróma og þeirra lántaka sem undir félagið heyra. Úr þeim vanda verður að leysa. Þessi mál hafa lengi verið í skoðun og ég tel að grípa verði til aðgerða í því máli vegna þess að FME hefur fengið ótal kvartanir vegna viðskipta við Dróma, en það virðist engu breyta. Mér finnst að menn þurfi að setjast yfir það. Verið er að skoða málefni Dróma frá eignarhaldsfélagi Seðlabankans og ráðherranefnd um skuldavanda heimila. Allir þeir aðilar leita nú leiða til að tryggja lántökur sem eiga sín mál undir Dróma, sömu réttindi og meðferð skuldamála og hjá öðrum fjármálastofnunum.

Ég held að menn hljóti að skoða hvort ástæða sé til að flytja eignasafnið frá Dróma með einhverjum hætti til Seðlabanka eða til Arion banka vegna þess að allar leiðir sem menn vilja fara í þessu efni til að rétta hlut þessa fólks virðast ekki skila tilætluðum árangri. Fjármálaráðuneytið hefur nokkuð víðtækar heimildir og skyldur til eftirlits með starfsháttum fjármálafyrirtækja og það á einnig við um Dróma. FME hefur tekið starfsemi Dróma til skoðunar og mun væntanlega taka á þeim þáttum sem menn telja að sé ábótavant þar. En það er ekki hægt að una við að viðskiptamenn Dróma fái allt aðra fyrirgreiðslu, allt aðra þjónustu, allt aðra aðstoð í skuldavanda sínum en aðrar fjármálastofnanir þannig að mér finnst eðlilegt að hv. þingmaður taki þetta mál upp, þetta er stórt vandamál sem við verðum að leysa.

Ríkisstjórnin og sérstök ráðherranefnd fjalla nú um (Forseti hringir.) málið og mun nefndin væntanlega skila niðurstöðu sinni á föstudaginn eða þriðjudaginn. Þá munum við koma með tillögur um aðgerðir, sem við verðum að gera, sem duga til að breyta þeirri stöðu sem uppi er (Forseti hringir.) hjá Dróma.