141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

húsaleigubætur til námsmanna.

[10:59]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni húsaleigubótakerfið og hef þá í huga nemendur sem stunda nám í framhaldsskóla í hinum dreifðu byggðum landsins. Það vill þannig til að heimavistarbúar í dreifbýli fá engar húsaleigubætur ef þeir eru svo óheppnir að eiga lögheimili í sama sveitarfélagi og skólinn sem þeir stunda nám í er til húsa. Jöfnunarstyrkur til framhaldsskólanema miðast við fjarlægð frá skóla en húsaleigubótakerfi styðst hins vegar ekki við neina slíka fjarlægðarstiku. Í því kerfi eru línur dregnar um sveitarfélög og þá er ekki gott að eiga heima í stóru sveitarfélagi.

Nýlegt dæmi er um nemanda úr Fljótsdalshéraði sem er eitt víðfeðmasta sveitarfélag landsins. Þar er fjarlægð á milli heimilis og skóla um 50 km og samgöngur svo sannarlega ekki alltaf góðar. Ég held að við getum verið sammála um það að nemi sem þarf að ferðast slíka vegalengd á hverjum degi vilji fremur búa á heimavist en að keyra fram og til baka á hverjum einasta degi. Þessi nemandi fær ekki húsaleigubætur eins og herbergisfélaginn þó að álíka langt sé á milli heimila þeirra og skólans þá sitja þeir ekki við sama borð. Af því að annar er nefnilega svo óheppinn að eiga lögheimili í Fljótsdalshéraði þar sem menntaskólinn er, hann fær ekki húsaleigubæturnar því hann er ekki með aðsetur í skólanum þar sem það má ekki flytja aðsetur innan sveitarfélags, samkvæmt lagatúlkun Þjóðskrár.

Þetta er ekkert einsdæmi því að eftir sameiningu sveitarfélaga búa margir foreldrar og nemendur við enn meiri fjárhagslegan ójöfnuð vegna þess að húsaleigulögin hafa ekki fylgt eftir breyttu landslagi. Þetta er auðvitað mismunun og má velta því fyrir sér líka hvort þetta sé ekki brot á jafnræðisreglu. Á sama tíma og verið er að hvetja nemendur til að stunda nám í heimabyggð þá getur þetta ekki farið saman og ég veit að þetta er gríðarlega mikilvægt mál fyrir frekar stóran hóp.

Mig langar því að spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort til standi að breyta húsaleigulögunum, þannig að gert sé ráð fyrir þeirri breytingu sem hefur átt sér stað við sameiningu sveitarfélaga og yrði til að jafna þann aðstöðumun sem ég hef hér gert grein fyrir.