141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

húsaleigubætur til námsmanna.

[11:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er rétt að í þessu dæmi sem ég tók hér áðan var það sveitarfélagið sem synjaði foreldrunum og námsmanninum um húsaleigubæturnar og ég veit að þau hafa kært þessa synjun til velferðarráðuneytisins eða úrskurðarnefndar félagsþjónustu- og húsnæðismála.

Það er alveg ljóst að fjölskyldur sem þurfa að senda eitt eða fleiri börn um langan veg í skóla bera af því mikinn kostnað og það er því mikilvægt að þetta verði inni í hinum nýju lögum, að mínu viti, þar sem sérstaklega er tekið á þessu og ég vona auðvitað að samband sveitarfélaganna leggi á það áherslu með ráðuneytinu, af því að við stöndum auðvitað fyrir jafnrétti til náms og grundvallaratriði í því er þessi hluti af velferðarþjónustunni okkar.