141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:31]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það að skýringartextinn þurfi að vera mjög skýr. Varðandi auðlindaákvæðið til dæmis þá fór ég á ráðstefnur þar sem reynt var að útskýra þetta á liðnu ári og þar sögðu menn að textinn sem slíkur væri út af fyrir sig ekki stórkostleg breyting frá ýmsu því sem nú er og mundi ekki breyta í dómafordæmum neinu vegna þess að menn hefðu stoð í 1. mgr. 1. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hins vegar, ef menn horfðu á þær skýringar sem lágu fyrir, en nú er lögfæðihópurinn vissulega búinn að fara yfir það, og komu fram í stjórnlagaráði þá voru þær þess efnis að menn færu á taugum og gætu ekki notað þær til neins. Það er því mjög mikilvægt að textinn sé skýr og að skýringarnar séu líka skýrar og skýri beinlínis hverja grein.

Ég hef alla tíð viljað setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána og barist fyrir því í mörg ár ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins, en þegar ég heyrði skýringar einstakra stjórnlagaráðsmanna, og reyndar einstakra þingmanna hér í salnum líka, á þessu ákvæði þá fór ég að hugsa minn gang og gat því miður alls ekki lesið það sama út úr textanum. Það er því ákaflega mikilvægt að skýringartextinn sé mjög skýr og hafi beina skírskotun til greinarinnar.

Það er rétt að það mun hafa gríðarlegt álag í för með sér á framkvæmdarvaldið, á dómstóla og á Alþingi ef við tökum allar þessar breytingar inn í einu. Það eru hugmyndir uppi, sem ég kom ekki að áðan, um að setja á stofn Lögréttu, sérstaka nýja stofnun sem færi yfir frumvörp ef þess væri óskað. Í því skyni vil ég taka undir þau orð hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, sitjandi forseta í umræðunni í gærkvöldi, hvort ekki væri nægilegt að styrkja lagasvið Alþingis með lagaskrifstofu, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og fleiri hafa lagt til, og því sé ekki nauðsynlegt að (Forseti hringir.) setja þessa Lögréttu á fót. Þetta er spurning sem þarf að fara yfir með það fyrir augum að létta á álaginu á þingi og framkvæmdarvaldi og síðar meir dómstólum.