141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn héldum einmitt ráðstefnu um sveitarfélagakaflann og stjórnarskrána í fyrravor þar sem doktorsneminn Eva Marín Hlynsdóttir var okkur til ráðgjafar. Í núgildandi grein, 78. gr., stendur þetta reyndar líka á íslensku, það má alla vega skilja það þannig. Það var mat margra sérfræðinga á þeim tíma að þrátt fyrir þessa nýju viðbót væri mikið meira af orðum en þar stæði ekkert mikið meira. Það var sjónarmið þeirra.

Ég tek hins vegar heils hugar undir, og nefndi það í máli mínu, að það þurfi að setja sveitarfélögin á hærri stall samhliða ríkisvaldinu vegna þess að þetta eru tvö framkvæmdarvöld, tvö stjórnvöld sem fara með 100% af ákvörðunum og fjármögnun okkar í landinu í mismunandi hlutfalli. Ég benti þess vegna á 2. gr.

Ég geri hins vegar engar stórar athugasemdir við kaflann sem slíkan en það er umdeilanlegt hvort þar standi mikið meira þó að greinarnar séu orðnar fjórar og textinn meiri.

Ég vona bara, í lok andsvars míns, að við gefum okkur nægilegan tíma (Forseti hringir.) til að fara yfir þetta og hlustum nægilega mikið hvert á annað til að ná sem breiðastri samstöðu um breytingar á stjórnarskránni.