141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:55]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka jákvæð viðbrögð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar. Ég velti fyrir mér, hann talaði um hvort við sæjum fyrir okkur allt aðra útfærslu. Ég held að við þurfum að skoða mjög vel alla þá möguleika sem við höfum. Ég held að við viljum í raun og veru öll hafa það þannig að það sé jöfnuður á öllum sviðum og að við séum búin að ná þeim þroska að hugsa að sjálfsögðu ávallt um hagsmuni allra landsmanna. Einhvers konar útfærslu þurfum við því að skoða sem tryggir að talsmenn minnihlutahópa eins og landsbyggðarfólks á Íslandi eigi sér talsmenn á Íslandi.

Hvað varðar skoðanabræður í stjórnarliðinu verð ég að viðurkenna að ég hef ekki gert neina úttekt á því en ég veit að það eru mjög margir í stjórnarliðinu sem eru ekki á sömu skoðun og ég enda er staðan þannig að kannski eru það ekki síst landsbyggðarþingmenn sem hafa velt þessu fyrir sér. Ég get alla vega sagt það fullum fetum að ég veit að ég á skoðanabræður og -systur í stjórnarliðinu.

Mig langar að benda á að við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að það er ákveðin nýbreytni í kaflanum um sveitarstjórnarmál í stjórnarskránni. Þar eru í raun og veru ákveðnir möguleikar á að færa þjónustuna og ákvarðanatökuna nær fólkinu þannig að benda má á það ákvæði til einhvers konar mótvægis við ákvæðið í 39. gr.