141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og það er ágætt að vita til þess að skoðanabræður og -systur er víða að finna í flokkum um þessi efni. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að umræðan sem við erum að taka hér bendi meðal annars til að svona stórt atriði eins og um ræðir hafi ekki verið nægilega ígrundað áður en það var sett fram. Við verðum að treysta því að í efnislegri umfjöllun og meðferð þingsins í málinu verði gerðar á því breytingar.

Ég sé að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er í salnum sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég treysti því að hún sjái svo um að sérstaklega þetta ákvæði verði tekið fyrir og vandað betur til verka en um ræðir því ég fullyrði að ef þetta gengur óbrjálað eftir með því lagi sem hér er sett fram, verður misvægið enn meira en á allt annan veg en því er háttað í dag.