141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta. Já, þess vegna fagna ég því mjög að þetta mál sé loksins komið fyrir þingið. Það er búið að draga allt of lengi að taka það efnislega fyrir á vettvangi þess og meðal þingmanna, og það styttist í kosningar.

Úr því að þingmenn stjórnarliðsins eru ekki komnir með mótaðar lausnir að til dæmis þessum kosningakafla er mér til efs að þeim ákvæðum verði breytt í þessu frumvarpi vegna þess að það er svo langt á milli manna. Þá er greinilega ekki lengur meiri hluti fyrir breytingu á 39. gr., svona til upplýsingar.

Þarna eru líka gerðar tillögur að breytingum um sveitarstjórnarmál og sveitarstjórnir og mig langar að spyrja þingmanninn sem ég veit að hefur starfað mikið að sveitarstjórnarmálum: Hefur hún eitthvað kynnt sér þá nálægðarreglu sem er lögð til í sveitarstjórnarkaflanum og út á hvað hún gengur? Hún er beint eftir fyrirmynd Evrópusambandsins.