141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér hefði nú þótt betra að hann væri hófsamari í orðavali í þessari umræðu, en það hefur hver sinn smekk í því.

Ég verð að segja að það skiptir verulega miklu máli að við ræðum mjög vandlega einmitt það sem hv. þingmaður lagði hvað mesta áherslu á, þ.e. atkvæðisréttinn, jafnan rétt til atkvæðis í kosningum til þings, því það er það sem við erum að tala um. Það er jafn kosningarréttur. Það er eitt atkvæði á mann í öðrum kosningum. Það er eitt atkvæði á mann þegar við kjósum í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og 20. október síðastliðinn. Það er eitt atkvæði á mann þegar við kjósum til forseta eins og síðastliðið sumar. Og það er eitt atkvæði á mann þegar við kjósum til sveitarstjórna, líka þar sem er blandað saman þéttbýli og dreifbýli í stórum sveitarfélögum. Þar er þessi hugsun, einn maður, eitt atkvæði, í heiðri höfð. Það skiptir verulega miklu máli að vanda sig við röksemdirnar. Hv. þingmaður talaði um einn á móti tveimur. Þetta er sá kafli í núgildandi stjórnarskrá sem hvað oftast hefur verið breytt, það er kjördæmaskipanin, til þess að reyna að styrkja hlut landsbyggðarinnar hér inni á þinginu, það hefur verið gert margoft.

Feneyjanefndin var sett á stofn eftir fall járntjaldsins til þess að leiðbeina og aðstoða þjóðir þar til þess að byggja upp nýtt lýðræðislegt þjóðskipulag. Hún mun að sjálfsögðu fara sérstaklega ofan í þetta. Í erindi og fyrirspurn sem formaður stjórnskipunarnefndar hefur sent og var kynnt hér í umræðunni í fyrradag, kom það einmitt fram (Forseti hringir.) að það er sérstök áhersla lögð á að Feneyjanefndin skoði kosningakerfið með tilliti til áhrifa þess á fulltrúalýðræðið hér á Alþingi.