141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að ég hafi verið stórorður að einhverju leyti í ræðu minni áðan. Ég reyndi þó að vera efnislegur. Ég reyndi að færa rök fyrir mínu máli. Ég verð bara að segja það eins og er að ég hef svo alvarlegar athugasemdir við þessa 39. gr., ég tel að hún sé svo afleit að ég get ekki annað en haft nokkuð stór orð um það sem mér finnst svona afleitt og algjörlega ómögulegt.

Ég færði fyrir því rök og ég hef reynt að gera það efnislega að það væru rök fyrir því að líta til fleiri þátta heldur en bara jöfnunar atkvæðisréttar og vísaði m.a. til reynslu og nálgunar annarra þjóða. Ég tel að þannig eigum við að nálgast þessa umræðu. Ég hef alltaf verið mjög gagnrýninn á það alla tíð að umræðan á Íslandi um kosningafyrirkomulag og kjördæmaskipan, sem er rétt hjá hv. þingmanni, að er sá þáttur sem oftast hefur verið breytt í okkar stjórnarskrá, umræðan hefur að mínu mati verið út frá allt of þröngu sjónarhorni. Ég var ekki einu sinni að fjalla um það sem mjög margir tala um í þessu sambandi sem er jöfnun lífsgæða að öðru leyti. Ég fjallaði vísvitandi ekki um það, ég var einfaldlega að vísa til þess að við stjórnskipunina sjálfa bæri mönnum að líta til fleiri þátta.

Síðan er það hitt. Jafnvel þó menn segðu sem svo að það ætti að vera hægt að jafna vægi atkvæða og menn ættu ekki að vera að hugleiða þá þætti sem ég var að nefna hérna, þá færði ég fyrir því rök og vísaði m.a. í fræðilegar athuganir sem segja okkur það að þetta fyrirkomulag leiði til nýs óréttlætis, ef þannig er hægt að orða það. Þannig segir Þóroddur Bjarnason í greininni sem ég nefndi áðan að þetta fyrirkomulag mundi leiða til þess að í stað þess að landsbyggðarkjördæmin hefðu miðað við þessa hugmynd, sex þingmenn umfram mannfjölda eins og er í dag, mundi það leiða til þess að þeir þingmenn sem sæktu umboð sitt til landsbyggðarinnar yrðu a.m.k. 12 færri en jafnt atkvæðavægi segir til um.

Þetta eru efnislegar (Forseti hringir.) ábendingar sem ég segi að nefndin verði auðvitað að taka fullt tillit til. Fyrir utan það að nefndinni (Forseti hringir.) ber auðvitað að taka tillit til sjónarmiða hins stóra minni hluta sem hefur aðrar skoðanir á þessu máli.