141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og sérstaklega þann hluta hennar er varðar jöfnun atkvæða. Ég vil taka undir með hv. þingmanni í nær öllu sem kom fram í máli hans hvað þann þátt snertir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við hugum að þessum þætti og setjum skýrar línur í umræðuna. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því í umræðunni hvernig stjórnarliðar hafa komið hér upp hver á fætur öðrum og sagt að þeir styðji frumvarpið í einhverjum atriðum eins og það lítur út, en hafi verulegar athugasemdir við þennan þátt málsins sem snýr að jöfnun atkvæða.

Mig langaði að velta upp spurningu til hv. þingmanns í ljósi umræðunnar sem verið hefur um þetta mál. Það hefur verið rætt af ákveðnum fulltrúum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það hefur verið rætt af þeim fulltrúum sem hafa setið í stjórnlagaráði að það komi ekki til með að verða neinar breytingar á frumvarpinu milli 1. og 2. umr. Er hv. þingmaður bjartsýnn á að tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða sem upp hafa komið varðandi jöfnun atkvæða milli 1. og 2. umr.? Það er spurning númer eitt.

Síðan langar mig að velta því almennt upp við hv. þingmann hvort hann geti farið ofan í það hvernig hann telji heppilegast að breytingar á stjórnarskrá fari fram. Ég hefði talið eðlilegast þegar við erum að breyta stjórnarskrá að teknir séu fyrir ákveðnir afmarkaðir þættir og reynt sé að ná sem víðtækastri sátt um þá. Hvað finnst hv. þingmanni almennt um það? Við erum á þeim stað að verið er að ræða breytingar á stjórnarskrá í fullkomnum ágreiningi þar sem öll stjórnarskráin liggur undir en ekki einhverjir ákveðnir afmarkaðir þættir.