141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gefur augaleið að ef við tökum upp það fyrirkomulag að meiri hluti þingmanna verði kosinn á grundvelli þessa landslistafyrirkomulags eins og gert er ráð fyrir í þessari 39. gr. mun það hafa þau áhrif að verulega stór hluti þingmann kemur af fjölmennustu svæðunum. Af hverju er það? Auðvitað vegna þess að þar liggur atkvæðavægið og í þá áttina munu þess vegna frambjóðendur á þessum listum skírskota.

Við skulum vona að það verði undantekningar, við skulum gefa okkur að margir muni einfaldlega gefa lítið fyrir það að reyna að höfða til þessa stóra hóps og ná engu að síður kjöri, en óskaplega held ég að það völubein verði valt. Óskaplega held ég að það verði mikil freisting í þá áttina fremur að tala inn í þann hóp sem ráða mun úrslitum slíkra kosninga en til þess hóps sem fámennari er. Við sjáum í þinginu hvernig þessar umræður birtast okkur. Eru það ekki einmitt þingmenn landsbyggðarinnar sem tala fyrst og fremst um þau mál sem snúa að landsbyggðinni? Ég er samt ekki að segja að aðrir þingmenn séu henni endilega andvígir, þvert á móti. Ég held hins vegar að þetta endurspegli það að menn gæti að sínum pólitísku rótum í þessum efnum. Það er ekkert að því.

Ég tel að fyrirkomulagið við stjórnlagaþingskosninguna hafi verið mjög eitruð blanda. Persónukjör og landið eitt kjördæmi hlaut að enda með ósköpum að þessu leytinu. Ég er ekki að tala illa um þá einstaklinga sem hlutu kjör í þessari ólöglegu kosningu. Ég er einfaldlega að vísa til þess að það var ekki góð staða að tveir fulltrúar í stjórnlagaráðinu væru með þá skírskotun sem ég nefndi. Það skiptir máli og það þýðir ekki að horfa fram hjá því. Við sjáum það líka í yfirbragðinu á þessum tillögum.

Ég nefndi Bretland. Ég ætla að bæta því við að afskekktustu hlutar Bretlands hafa annað vægi í sínum kosningum til viðbótar við það ójafnvægi (Forseti hringir.) sem ríkir á milli flokkanna sem leiðir af einmenningskjördæmunum.