141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

staða þjóðarbúsins.

[13:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Eftir efnahagshrunið gafst Íslendingum tækifæri til þess að taka á vandanum sem því fylgdi með mjög afgerandi hætti. Þau tækifæri voru að nokkru nýtt með setningu neyðarlaganna en það ferli sem var nauðsynlegt og hófst með setningu neyðarlaganna var hins vegar ekki klárað. Við stöndum því enn frammi fyrir miklum vanda vegna þess að tækifærin voru ekki nýtt. Það verður smám saman ljósara hversu stór vandinn er og þar af leiðandi hversu mikil þörfin er fyrir það að bregðast við á afgerandi hátt. Fjárfesting hefur verið vanrækt á undanförnum árum að því marki að gjaldeyrissköpun er ekki næg til að standa undir þeim útgreiðslum sem fyrirsjáanlegar eru að óbreyttu.

Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum árum hvað eftir annað vanmetið stórlega hreina erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins. Síðast í maí á þessu ári áætlaði Seðlabankinn í peningamálum að skuldastaða þjóðarbúsins væri neikvæð um u.þ.b. 50% af vergri landsframleiðslu. Þetta mat hefur smátt og smátt verið hækkað, bæði hjá Seðlabankanum og raunar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum líka, sem í síðustu þremur skýrslum sínum hefur jafnt og þétt hækkað mat sitt á því hver skuldastaða íslenska þjóðarbúsins er. Nú virðist blasa við að ef fram heldur sem horfir munum við, íslenska þjóðarbúið, ekki geta aflað nægs gjaldeyris til að standa straum af vaxtagreiðslum og öðrum greiðslum vegna þessa skuldastabba.

Þó að skuldastaða ríkisins gæti vissulega verið verri, eins og við sjáum dæmi um víða í Evrópu, bætast við miklar erlendar skuldir íslenskra lögaðila sem færa skuldastöðuna það hátt að nýjasta mat, m.a. hagfræðiprófessorsins Ragnars Árnasonar, gerir ráð fyrir því að þegar tekið hefur verið tillit til uppgjörs á þrotabúum bankanna verði hrein erlend skuldastaða í kringum 100% af vergri landsframleiðslu, geti orðið um 1.600 milljarðar króna. Miðað við nýjustu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um stöðu mála á Íslandi sem birtist fyrr í þessum mánuði eru nettóáhrif þrotabúanna þar af 30–40% af vergri landsframleiðslu. Þetta eru gífurlega háar upphæðir sem breyta algjörlega möguleikum okkar á því að standa straum af vaxtakostnaði, þ.e. þjóðarbúsins, svo framarlega sem ekki verði gripið þarna inn í.

Jafnframt sjáum við af þessum nýjustu tölum og uppfærðum tölum Seðlabankans að það hefði verið óframkvæmanlegt fyrir íslenska ríkið að bæta Icesave-vöxtunum ofan á þá vexti sem fyrirséð er að muni þurfa að greiða úr landi í erlendri mynt. Ef Icesave-samningar hefðu verið samþykktir á sínum tíma væri ekki með nokkru móti hægt að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ísland stefndi í þrot eða væri komið í þrot.

En enn er hægt að leysa vandann. Enn er hægt að grípa þarna inn í. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra, og það er tilefni þessarar umræðu: Með hvaða hætti hyggst hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin bregðast við stöðu þjóðarbúsins svoleiðis að afborganir af þessum skuldum, bæði einkaaðila, sveitarfélaga og ríkisins, verði sjálfbærar? Ef ekkert verður að gert mun, samkvæmt spá sem fyrrnefndur Ragnar Árnason háskólaprófessor hefur gert og birtist í Morgunblaðinu í dag, skuldastaðan fara stöðugt versnandi næstu 60 árin og verða 230% af vergri landsframleiðslu. Það mun að sjálfsögðu fela í sér gríðarlega kjaraskerðingu fyrir Íslendinga alla og ófyrirséðar afleiðingar, hugsanlegan landflótta, draga úr öllum möguleikum okkar á að byggja upp íslensk atvinnutækifæri, íslenska framleiðslu og vinna okkur út úr vandanum. Með öðrum orðum, það stefnir í mjög hættulega neikvæða keðjuverkun sem setur efnahag landsins í voða. Því er fullt tilefni til þess að stjórnmálamenn, ríkisstjórnin ekki hvað síst og hæstv. forsætisráðherra, bregðist við þeim vanda og skýri (Forseti hringir.) með hvaða hætti verði tekið á honum.